Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar er hafin

Frá þurrkasvæði í Eþíópíu.

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar eru nú í óða önn að undirbúa sérstaka aðstoð við fólk sem býr við kröpp kjör svo það geti gert sér dagamun yfir hátíðirnar. Fólk í brýnni þörf fær inneign á greiðslukort fyrir matvöru. Foreldrar fá auk þess aðstoð svo börnin fái jóla- og skógjafir. Utan Reykjavíkur er aðstoðin veitt í góðri samvinnu við Hjálpræðisherinn, Rauða krossinn, Mæðrastyrksnefndir og kirkjusóknir vítt um landið og með frábærum stuðningi frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum.

Aðstæður fólks í mestum vanda hafa versnað

„Jólin eru sérstök hjá okkur. Það er vegna þess að þá kemur hingað stór hópur fólks sem við sjáum bara í desember. Auglýsingaflóðið byrjar strax í nóvember um hvernig við eigum að hafa jólin okkar. Það er afar erfitt sem foreldri, sem á lítið sem ekki neitt, að standa fyrir framan börnin sín og geta ekki tekið þátt. Fólk leitar því aðstoðar um jólin til að eiga smávegis aukalega,“ segir Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi sem hefur umsjón með starfinu innanlands.

Alls fengu fjölskyldur um land allt inneignarkort og fleira í 1.570 skipti fyrir síðustu jól en í 1.707 skipti var sá sami stuðningur veittur fyrir jólin 2020. Um síðustu jól er því ekki óvarlegt að áætla að um fimm þúsund manns hafi notið aðstoðarinnar. 

„Tilfinning mín er sú að nú fyrir jólin fjölgi aftur og ég finn að það gætir meiri örvæntingar hjá þeim sem sækja til okkar núna,“ segir Vilborg  en hækkandi húsaleigu, meiri eldsneytiskostnaði og dýrari matarkörfu fylgja þungar áhyggjur hjá þeim sem minnst hafa handa á milli.

Fátæktin viðheldur sjálfri sér

Í þróunarsamvinnu í Úganda og í Eþíópíu starfar Hjálparstarf kirkjunnar með fólki sem býr við ömurlegar aðstæður í sárri fátækt vegna sjúkdóma, vatnsskorts og öfga í veðurfari og vegna þess að fátæktin viðheldur sjálfri sér. Mannúðaraðstoð er veitt á vettvangi náttúruhamfara og stríðsátaka í samvinnu við systurstofnanir í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance.

Tökum nú á móti umsóknum um aðstoð

Tekið er á móti umsóknum frá barnafjölskyldum í Reykjavík á skrifstofu Hjálparstarfs kirkjunnar, Háaleitisbraut 66, neðri hæð, þann 1., 2. og 5. desember kl. 10 – 15.
Allar nánari upplýsingar um aðstoðina er að finna á https://www.hjalparstarfkirkjunnar.is/

Hjálparstarf kirkjunnar hefur jafnframt hafið fjársöfnun fyrir verkefnum innanlands og utan með því að senda valgreiðslu í heimabanka landsmanna að upphæð 2.500 krónur.

DEILA