Jólahugvekja: Jólaóskin mín

Dagana fyrir jól þá er spenna í loftinu.  Börnin eru spennt af því að það eru að koma jól.  Fullorðna fólkið veltir fyrir sér hvernig jólamaturinn verði, hvort gjafirnir hitti í mark og hvort fjarstaddir ættingjar nái heim í tæka tíð.  Spennan nær hámarki klukkan sex á aðfangadagskvöld þegar jólin eru hringd inn.  Þá hljómar kirkjuklukkan í þorpinu og sveitinni, klukkan í útvarpinu tekur undir og það eru komin jól.  Tilhlökkunin er á enda.  Jólin eru komin.  Eftir að hafa borðað veislumat með fjölskyldu og vinum og tekið upp pakka þá leggst nokkurs konar alsæla yfir mannskapinn.  Þetta er vellíðan, hin sanna jólagleði.  Aðfangadagur er dagur djúpra tilfinninga.  Það er þessi djúpa tilfinning og sterka upplifun, sem gerir jólin svo spennandi; eitthvað sem við þráum að upplifa ár eftir ár.

Jóladagurinn sjálfur er annarar gerðar.  Ef ég ætti að lýsa honum með einu orði þá væri það orðið jólafriður.  Á jóladaginn er allt í jafnvægi, það er engin spenna og við erum öll úthvíld.  Það er eins og veröldin sé í hægagangi.  Það er líkt og sjöundi dagur sköpunarinnar sé runninn upp þegar Guð hvíldist af öllu sínu verki eins og segir frá í upphafskafla Biblíunnar.

Aldrei þrá manneskjurnar frið meira en á sjálfum jólunum.  Hermenn, sem verið hafa á vígvöllunum, fangar, sem setið hafa í myrkri dýflissu, hafa sagt frá því á eftir hversu sterk þráin var eftir friði og frelsi á sjálfum jólunum.  Þá hugsuðu þau um gömlu góðu jólin, þegar jólafriður og gleði skein út úr hverju andliti.

Á þessum jólum verður mér hugað til bræðra okkar og systra í Úkraníu.  Hvernig skyldu þeirra jól verða?  Ætli fólk í borgum Úkraníu þurfi að halda sín jól neðanjarðar vegna þess að uppi á götum borganna rignir niður sprengjum!

Boðskapur jólanna er ætlaður öllum þjóðum, – líka þeim þjóðum þar sem valdhafarnir hafa att fólkinu út í stríð.  Öllu mannkyni er færður þessi boðskapur:  „Yður er í dag frelsari fæddur!“  Og frelsarinn sjálfur er lítið barn, liggjandi í jötu.  Það er ekki til neitt jafn varnalaust og ósjálfbjarga og lítið barn, sem liggur í hálmstalli í einhverjum fjárhúshelli í fjarlægu landi.  Samt segja jólin að Guð sjálfur sé í þessu barni.  Þegar barnið hjalar, grætur, sefur eða kúrir í mömmufangi þá er Guð þar, Guð sefur, kúrir í fangi Maríu, hann hjalar og grætur.  Guð og barnið!  Boðskapur þessarar sögu er sá að lífið sé heilagt, að sérhvert barn sé barn Guðs.  Og í augum sérhvers barns megi sjá blik frá augum Guðs, blik kærleikans, augnatillit, sem segir við okkur mennina:  Ég treysti á þig, treysti því að þú annist mig vel.  Og við sjáum fyrir okkur Maríu vefja barnið sitt reifum svo það finni fyrir öryggi eins og þegar nútímaforeldri vefur sænginni þétt að hvítvoðungnum.

Styrjaldir eru alltaf brot gegn Guði og mannkyninu.  Vegna þess að styrjaldir eyða lífinu hér á jörð.  Stríð skemma lönd og ríki og kalla fram allt það versta í mannskepnunni.  Stríð er glæpur gegn mannkyninu.

Ef ég mætti biðja um eina jólagjöf handa heiminum þá væri það ekki kókflaska í hvers manns hendi, enda þótt auglýsingin gamla og góða með unga fólkinu í brekkunni með kertaljós og Coca Cola standi alltaf fyrir sínu.  Nei, ef ég mætti biðja um eina jólagjöf þá væri það friður á jörðu, friður milli manna.  Það væri friðurinn, sem englarnir sungu um fyrir fjárhirðana á Betlehemsvöllum.  Enn er sá friður ókominn.  En hver veit, með tækninni er hægt að sameina allan heiminn.  Öll horfðum við á Messí lyfta upp bikarnum gullna.  Hví skyldi tækni framtíðarinnar ekki geta sameinað okkur öll og kennt okkur að lifa saman í friði því þegar allt kemur til alls þá erum við öll börn þessar jarðar, sem við eigum öll saman.

Þetta er jólaóskin mín.  Og hún á eftir að ræstast enda þótt ég lifi kannski ekki að sjá það.  Sá tími mun koma þegar menn breyta sverðum í herfi og hrífur til að yrkja jörðina.  Og þá verða ekki framar nein stríð.

Guð gefi þér og þínum gleðileg jól!

Magnús Erlingsson,

prófastur á Ísafirði.

DEILA