Ísafjörður: dýpkun hafin í Sundahöfn

Dælingin hafin í gær. Sandi dælt á land í Sundahöfn. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Dýpkunarskipið Álfsnes kom óvænt siglandi til Ísafjarðar í gær og hóf þegar dýpkun í Sundahöfn. Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri var kátur þegar Bæjarins besta hafði samband við hann og sagðist fagna komu skipsins. Álfsnesið verður hér vestra við dýpkun þar til verkinu verður lokið og annað dýpkunarskip Sóley mun einnig koma vestur um miðjan janúar næstkomandi. Sá fyrirvari er þó á að Álfsnesið gæti þurft að fara suður til dýpkunar í Landeyjarhöfn ef aðstæður þar kalla á. Guðmundur kvaðst reikna með að dýpkun yrði lokið um miðjan mars.

Landfylling í Suðurtanga

Aðspurður um hvert efni yrði dælt sem áður var hugsað norðan við Fjarðarstrætið sagði Guðmundur að unnið væri eftir þeirri hugmynd að dæla því í landfyllingu sunnanvið í Suðurtanga. Verið væri að skoða það nánar en sér sýndist að það gæti sloppið miðað við deiliskipulag svæðisins.

Álfsnesið siglir inn Skutulsfjörð í gær. Mynd: Heimir Tryggvason.

DEILA