Ísafjarðarbær: velferðarnefnd vill ekki tryggingu í leiguíbúðum

Velferðarnefnd Ísafjarðarbæjar fagnar nýjum reglum um útleigu félagslegra íbúða sem sagt hefur verið frá á Bæjarins besta og leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að þær verði samþykktar. Þó vill velferðarnefnd taka skýrt fram að hún er því ekki samþykk að fólk sem leigir húsnæði á félagslegum forsendum þurfi að greiða tryggingu. Því hvetur velferðarnefnd bæjarstjórn eindregið til að ákvæðið verði fjarlægt úr reglunum.

Í reglunum sem bæjarráðið gekk frá og sendi til velferðarnefndar segir að leigutaki þurfi að standa skil á tryggingarfé sem er ígildi 3 mánaða leigu. Tryggingarféð stendur til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi, þ.e. fyrir leigugreiðslum, kostnaði sem fellur til við skil á íbúð og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða sem leigjandi kann að bera ábyrgð á samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga.

Velferðanefndin fellst á nýtt fyrirkomulag um ákvörðun húsaleigu sem er ákveðin krónutala á hvern fermetra íbúðar en leggur til að þar sem mest er hækkunin verði hún framkvæmd í viðráðanlegum áföngum.

Bæjarstjón afgreiðir málið á næsta fundi sínum sem verður í dag kl 17.

DEILA