Ísafjarðarbær: starfsmenn fá 50% afslátt í sund

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu frá mannauðsstjóra um 50% afslátt af árskortum í sundlaugum Ísafjarðarbæjar á Flateyri, Suðureyri, Þingeyri og Ísafirði fyrir starfsfólk, og taka nýjar reglur gildi 1. janúar 2023. Afslátturinn gildir ekki með öðrum tilboðum.

Í minnisblaði mannauðsstjóra segir að tillagan sé liður í heilsueflingu hjá vinnustöðum Ísafjarðarbæjar. Með því að bjóða t.d. afslátt af sundkortum, er aukin hvatning hjá starfsfólki til að kaupa sér eitt slíkt og fara að synda.

Þá segir:

„Með því að veita starfsfólki góðan afslátt af sundkortum er sveitarfélagið að fylgja vel eftir mannauðsstefnu þess, en þar kemur m.a. fram að það hvetji starfsfólk sitt til þess að stunda reglulega hreyfingu og huga að andlegri og líkamlegri heilsu sinni. Sveitarfélagið sýnir þannig að því sé annt um og viljugt til að stuðla að heilsufarslegum ávinningi fyrir starfsfólk sitt.“

DEILA