Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar telur sig ekki geta afgreitt erindi frá Golfklúbbi Ísafjarðar um stækkun vallarins þar sem vinna við endurskoðun aðalskipulags er í gangi.
Árið 2018 lagði golfklúbburinn inn erindi um stækkun vallarins og í ágúst sama ár afgreiddi skipulags- og mannvirkjanefnd erindið á þann veg að ekki væri tímabært að umræddu svæði verði úthlutað. Segir í afgreiðsu nefndarinnar að tillaga liggi fyrir um hönnun útivistarsvæðis í Skutulsfirði og að deiliskipulag Tungudals verði endurskoðað m.t.t. notkunar og útivistar almennings, stækkun golfvallar fellur undir þá vinnu.
Í síðasta mánuði voru lagðar fram nýjar tillögur að stækkun golfvallarins og að nýr golfskáli yrði byggður innan við byggðina í Tunguhverfi. Gert er ráð fyrir 300 fermetra byggingu að hluta til á tveimur hæðum.
„Mestu máli skiptir er að vita hvort félagið geti fengið þetta svæði úthlutað og það yrði afmarkað sem slíkt á nýju aðalskipulagi.“ segir í erindi golfklúbbsins.
Nefndin hefur svarað erindinu eins og að frama er greint.
