Ísafjarðarbær: sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn fjárhagsáætluninni

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Johann Birkir Helgason og Steinunn G. Einarsdóttir greiddu atkvæði gegn fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir næsta ár,sem afgreidd var í síðustu viku, og skýrðu afstöðu sína með ítarlegri bókun. Fram kemur að þeir vilja lækka skatta og huga að sölu eigna.

„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka Í-lista og B-lista fyrir vinnu við gerð fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023. Þá ber einnig að þakka starfsmönnum Ísafjarðarbæjar fyrir þeirra vinnu, þar hefur mest mætt á fjármálastjóra og fær hún sérstakar þakkir.
Samstarfið hefur verið gott í þeirri vinnu, vinnufundir og nefndarfundir skila þessu af sér. Mestu munar þó að skatttekjur aukast um ríflega 400 millj milli ára. Nú kemur í ljós áherslumunur þessara flokka, D-listi hefur það að leiðarljósi að lækka skatta en Í-listinn vill hækka skatta.
Minnihlutanum náðist eingöngu að fá meirihlutann til að halda álagningarprósentu fasteignaskatts í stað, í stað þess að lækka hann eins og fyrri meirihluti gerði þegar fasteignamat hækkaði. Hækkun á fasteignaskatti á íbúðarhúsnæði er 22,23% eða 53,8 millj. hækkun milli ára sem leggst beint á íbúa sveitarfélagsins eða 14.000 kr á hvern íbúa sveitarfélagsins.
Lóðarleiga hækkar einnig milli ára og því er hækkunun enn meiri eða um 17.000 á hvern íbúa. Eðlilegt væri að hækkun fasteignaskatts hækkaði í sama hlutfalli og verðbólga, eins og aðrar gjaldskrár sveitarfélagsins.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að fasteignaskattsprósenta haldi áfram að lækka og fari í 0,52% í stað 0,56%. Við þessa breytingu lækkar fasteignaskattur úr 514,7 millj í 493,5 millj eða um 21,1 millj. Þetta er lækkun skatttekna um 0,46%. Vissulega á eftir að reikna út lækkun á greiðslum frá jöfnunarsjóði og því gæti heildarlækkun verið um 30 millj.
Þetta er ekki mikil lækkun fyrir Ísafjarðarbæ en með þessu er komið til móts við íbúa sveitarfélagsins, greiðslubyrði íbúa hefur hækkað verulega vegna verðbólgu undanfarinna mánaða.
Þessi 22 % hækkun fasteignaskatta mun svo einnig fara beint inn í leiguverð. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki tekið þátt í svona skattálagningu og er ekki sammála meirihlutanum, reyna ætti að hlífa íbúum við frekari skattlagningu og líta sér nærri þegar kemur að rekstri bæjarsjóðs með frekari hagræðingu.
Þá ætti að skoða hvort það þjóni hagsmunum sveitarfélagsins að eiga landeignir eins og Seljaland í Álftafirði eða Reykjanes í Ísafjarðardjúpi. Hægt væri að selja þessar landeignir enda eru þær ekki að skila neinum tekjum til Ísafjarðarbæjar.
Sjálfstæðismenn leggja til að horft verði mjög ígrundað í allar mannaráðningar, nýtum starfsmannaveltu til að ná þessum markmiðum. Sú lækkun álagningarprósentu sem hér er nefnd úr 0,56% í 0,52 % eru tvö til þrjú stöðugildi.
En af því sögðu eru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks ekki tilbúnir að samþykkja síðari tillögu af fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2023.“

DEILA