Ísafjarðarbær: leikskólagjöld hækka um 8%

Leikskólinn Eyrarskjól. Mynd: Isafjörður.is

Gjaldskrá Ísafjarðarbæjar fyrir leikskóla hækkar um 8% um áramótin næstkomandi. Gjald fyrir 8 klst vistun fer úr 27.570 kr á mánuði upp í 29.780 kr. Þá hækkar verð fyrir hádegisverð og morgunhressingu einnig um 8%. Hádegisverðurinn hækkar úr 6.005 kr í 6.490 kr. og morgunhressingin verður 4.200 kr en er núna 3.887 kr.

Forgangsgjaldskrá fellur niður en samkvæmt henni er afsláttur 35% frá vistunargjaldi og hálfu aukagjaldi ( níunda tímanum). Í staðinn kemur að 40% afsláttur af vistunargjaldi er veittur einstaklingum með mánaðartekjur allt að 401.917 kr. og foreldrum í sambúð með mánaðartekjur allt að 643.083 kr.

Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar leggur nú til breytingu á gjaldskránni þannig að aðeins verði eitt tekjuviðmið á heimili óháð sambúðarformi og það verði allt að kr. 750.000 á mánuði eða kr. 9.000.000 á ári.

Tillagan verður afgreidd á fundi bæjarstjórnar á morgun.

DEILA