Ísafjarðarbær: Innviðaráðuneyti hafnaði breytingum á bæjarmálasamþykkt

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sem kjörin var 1. maí 2022. Mynd: isafjordur.is

Innviðaráðuneytið gerði athugasemdir við breytingar á bæjarmálasamþykkt sveitarfélagsins sem bæjarstjórn samþykkti þann 15. desmber sl og sagði þær ófullnægjandi. Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri sagði á fundi bæjarstjórnar í gær að hún hefði fengið skýr skilaboð frá ráðuneytinu og að gera þyrfti frekari breytingar á bæjarmálasamþykktinni nú fyrir áramótin.

Það eru breytingar á lögum um barnaverndarnefnd, og ný farsældarlög sem gera nauðsynlegt að breyta bæjarmála-samþykkt Ísafjarðarbæjar að því er fram kemur í minnisblaði sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs.

Hafði bæjarstjórnin gert þá breytingu 15.12. 2022 að Velferðarnefnd fari með verkefni yfirstjórnar barnaverndarþjónustu.

Ráðuneytið taldi það ófullnægjandi og var í gær bætt við nýju ákvæði um fullnaðarafgreiðslu mála skv barnaverndar-lögum sem færir sviðsstjóra velferðarsviðs vald til afgreiðslu mála og jafnframt kveður á um að sviðsstjóri beri ábyrgð á öllum verkefnum og ákvörðunum sem byggja á barnaverndarlögum sem ekki hafa verið falin öðrum þ.m.t. umdæmis-ráði, dómstólum eða öðrum stjórnvöldum. Þó segir að sviðsstjóri velferðarsviðs eða þriðjungur velferðarnefndar geti ávallt óskað eftir því að velferðarnefnd taki ákvörðun í máli.

Einnig bættist við ákvæði um endurupptöku mála sem heimilar aðila að óska eftir endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar hjá velferðarnefnd. Telji velferðarnefnd að skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi skal Barnaverndarþjónustu Ísafjarðar-bæjar taka málið upp að nýju. Hafi velferðarnefnd tekið hina upphaflegu ákvörðun, sbr 1. gr. viðauka þessa, skal endurupptökubeiðni beint til bæjarráðs.

DEILA