Ísafjarðarbær: handbók um úrgangsstjórnun

Fyrir bæjarráð var lögð í vikunni til umræðu samþykkt um meðhöndlun úrgangs, en breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs taka gildi 1. janúar 2023 og samkvæmt þeim skal tekið upp nýtt kerfi við innheimtu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs. Kerfið skal miða að því að hver og einn borgi fyrir það magn sem hent er og að rukka megi minna fyrir úrgang sem er flokkaður.

Í bókun bæjarráðs segir að innleiðing nýs kerfis muni standa yfir allt næsta ár og mega íbúar því gera ráð fyrir að geta haft val um mismunandi tunnustærðir og -fjölda með það að markmiði að lækka sorpgjöld heimilisins þegar innleiðingu verður að fullu lokið. Á næstu vikum munu fyrirhugaðar breytingar verða kynntar nánar fyrir fasteignaeigendum í sveitarfélaginu.

Lögð var fram handbók um úrgangsstjórnun upp á 61 bls sem VSÓ ráðgjöf hefur tekið saman. Þar eru sett fram dæmi um aðgerðir sem sveitarfélög geta farið í til að bæta úrgangsmeðhöndlun og bregðast við áskorunum sem upp koma. Aðgerðirnar geta verið hluti af svæðisáætlunum, samþykktum sveitarfélaga fyrir meðhöndlun úrgangs eða hluti af innviðauppbyggingu á þeirra vegum.

Handbók úrgangur_júní2022.pdf

DEILA