Ísafjarðarbær: gagnkvæmur samningur við Bolungavík áfram

Frá skíðasvæði Ísfirðinga.

Fulltrúar Ísafjarðarbæjar og Bolungavíkurkaupstaðar hittust í gær til þess að ræða framkvæmd á gagnkvæmum afnotum íbúa sveitarfélaganna af íþróttamannvirkjum. Frá 2004 hefur verið í gildi samningur sem gerir það að verkum að afsláttarkjör gilda fyrir íbúa beggja sveitarfélaganna. Hafa Ísfirðingar getað keypt sér kort í íþróttamannvirki, svo sem sundlaugar eða skíðasvæði í sveitarfélaginu og það gilt jafnfram í Bolungavík og öfugt. Þannig hafa korthafar á Ísafirði haft aðgang að sundlauginni í Bolungavík og korthafar í Bolvíkingar haft aðgang að skíðasvæðinu á Ísafirði og reyndar sundaugunum líka.

Eftir nýjustu gjaldskrárbreytingar Ísafjarðarbæjar voru spurningar uppi um áframhald þesa fyrirkomulags.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík sagði við Bæjarins besta að niðurstaða fundarins hefði verið að áfram yrði sami háttur á og verið hefur.

DEILA