Ísafjarðarbær: Framsókn studdi fjárhagáætlun bæjarins fyrir næsta ár

Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins Kristján Þór Kristjánsson og Elísabet Samúelsdóttir greiddu atkvæði með fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og gerði grein fyrir afstöðu sinni með sérstakri bókun. Þar kemur fram að tekið hafi verið tillit til athugasemda flokksins og vinnu við nýjan gervigrasvöll hafi verið flýtt til 2023 frá 2024.

„Það er ljóst að rekstur  er erfiður eins og margra sveitarfélaga.  Gert er ráð fyrir hagnaði A-hluta upp á rúmar 33 milljónir.  Verður að segjast að brugðið getur til beggja vona í þessari áætlun.   Ekki er gert ráð fyrir fjölgun íbúa í áætluninni en með fjölgun gætu tekjur orðið meiri.  Aftur á móti þarf ekki nema erfiðan snjóavetur eða myglu í húsnæði til að breyta hagnaði í tap.  Svo ekki sé talað um ef verðbólga verður meiri en 6% sem gert er ráð fyrir í áætluninni.  Sveitarfélagið er mjög viðkvæmt fyrir verðbólgu og verðbótum.

Gert er ráð fyrir að laun muni hækka um rúm 3% á næsta ári en miðað við lausa samninga á atvinnumarkaði og vísitöluhækkanir má færa rök fyrir því að það sé hóflega áætlað og í raun sé verið  að draga úr launakostnaði.  Það mun reyna verulega á að halda þessari launaáætlun og verður bæjarstjóri að fylgja fast eftir launaáætlun og öllu ráðningarferli. 

Mjög jákvætt er að tekjur séu að hækka um 580 milljónir milli ára í A-hluta og um rúman milljarð á tveimur árum í A og B hluta.  Er ljóst að áhrif covid eru horfin að mestu eftir erfið tvö ár.  Sveitarfélagið þarf samt sem áður að finna leiðir til að hagræða betur og finna frekari tekjur án þess að hækka endalaust skatta á íbúa.  Það er verkefnið.  Framsókn lagði til í fyrri umræðu að fallið yrði frá hækkun á fasteignaskattsprósentuna og fögnum við því að það hafi verið gert. Við hefðum ekki getað stutt slíka aðgerð.

Framsókn styður áætlanir bæjarstjórnar að setja sér fjárhagsleg markmið um rekstur sveitarfélagsins.  Sú vinna mun hjálpa stjórnendum og bæjarstjórn að koma rekstri sveitarfélagsins í rétt horf og að allir séu að sigla í sömu átt varðandi að bæta rekstur sveitarfélagsins, auka möguleika á að bæta innviði, fjárfestingar og þjónustu.

Rekstur sveitarfélaga á Vestfjörðum er þungur.  Ekki verður hjá því komist að tala um sveitarfélögin við Djúp.  Við teljum það skyldu pólitísk kjörinna fulltrúa að skoða frekar samvinnu og sameiningu sveitarfélaga við Djúp.  Sveitarfélög þurfa að setja í gang vinnu fagaðila að kanna hagkvæmni samvinnu eða sameiningar sveitarfélaga við Djúp, setja saman kosti, galla, tækifæri og ógnanir við sameiningu og kynna þetta fyrir íbúum.  Á endanum verður það ákvörðun íbúa  og verður það ekki gert nema með ítarlegri greiningu og góðri kynningu til íbúa.  Við munum ekki þrífast í sitthvoru horninu rífandi fjaðrir hvert af öðru.

Fjárfestingaáætlun er hófleg miðað við stöðu sveitarfélagsins og fögnum við að meirihluti hafi tekið til greina athugasemdir Framsóknar og fært hluta af vinnu við gervigrasvöll á næsta ár í stað 2024 og mun það flýta verulega fyrir nauðsynlegri bætingu knattspyrnuaðstöðu. 

Vinna við fjárhagsætlun 2023 einkenndist að góðri samvinnu og ágætu upplýsingaflæði.   Athugasemdir frá minnihluta hafa verið teknar til greina við vinnslu fjárhagsáætlunar og vinnan verið gegnsæ og er vert að þakka fyrir það.  Framsókn telur margt jákvætt við áætlunina og telur fjárhagsleg markmið sveitarfélagsins til hins góða.   Aftur á móti verða bæjarfulltrúar og sveitarfélagið að finna leiðir til að lækka skatta á íbúa sveitarfélagsins án þess að draga úr þjónustu.   Framsókn stendur fyrir samvinnu, hófsemi og heiðarleika.   Framsókn telur samvinnu bestu leiðina til að ná fram góðum árangri sveitarfélaginu til heilla. Að þessu sögðu ætla bæjarfulltrúar Framsóknar að vera samþykk þessari fjárhagsáætlun.“

DEILA