Ísafjarðarbær: fallið frá hækkun fasteignaskatts

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar afgreiddi á fundi sínum í gær fjárhagsáætlun næsta árs og áætlun næstu þriggja ára. Fallið var frá hækkun fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði úr 0,56% í 0,593% af fasteignamati og verður skatturinn óbreyttur.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til frekari lækkun fasteignaskattsins niður í 0,52%. Meirihluti Í listans lagðist gegn tillögunni og var hún felld með 5 atkvæðum gegn 2. Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins sátu hjá. Fram kom að álagður fasteignaskattur myndi lækka um 21 m.kr. ef tillagna yrði samþykkt.

Fjárhagsáætlunin var samþykt með 7 atkvæðum Í lista og B lista gegn 2 atkvæðum D lista. Gert er ráð fyrir að afkoma af rekstri næsta árs verði jákvæð um 34 m.kr. Tekjur hækka um 580 m.kr. milli ára og er hækkun tekna af fasteignaskatti stærsti liðurinn. Launakostnaður hækkar um 3% milli ára og skuldir hækka um 250 m.kr.

Fram kom í máli formanns bæjarráðs að 95 m.kr. væru til framkvæmda við nýjan gervigrasvöll á næsta ári og annað eins árið 2024. Þá væri vonast til að fjármagn yrði til þess að gera við núverandi gervigrasvöll.

Tillagan af fjárhagsáætlun og framkvæmdaáætlun hafa ekki verði birtar, né heldur breytingar sem gerðar hafa verið á tillögunni. Þá hefur greinargerð sem fylgir með fjárhagsáætluninni ekki verið birt. Er því fréttin einvörðungu byggð á því sem fram í máli bæjarfulltrúa á fundinum.

Boðað hefur verið að áætlanirnar verði gerðar opinberar þegar þær hafa verið samþykktar.

DEILA