Í listi: viðsnúningur í rekstri með ábyrgri fjármálastjórn og langtímasýn

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Meirihluti Í listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lagði fram ítarlega bókun við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir 2023. Í henni er lögð áhersla á að með áætluninni verði mikill viðsnúningur í rekstri bæjarins með ábyrgri fjármálastjórn og langtímasýn.

Þá segir að
● álagningarhlutfall fasteignaskatts verði óbreytt frá síðustu tveimur árum.
● nýr gervigrasvöllur muni stórbæta aðstöðu knattspyrnuiðkenda til æfinga og keppni.
● Sérstök áhersla sé á skipulags og umhverfismál.

„Fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram sýnir að aðhalds verður gætt í rekstri næsta árið. Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að árið verði nýtt til undirbúnings í skipulagsmálum og nýrra byggingasvæða, svo að við getum haldið ótrauð inn í tímabil uppbyggingar og viðhalds á eignum sveitarfélagsins sem er löngu orðið tímabært.“

Helstu niðurstöður áætlunar ársins 2023 eru samkvæmt bókuninni:
● Rekstrarafgangur A-hluta 33 m.kr.
● Rekstrarafgangur samstæðunnar 206 m.kr.
● Tekjur A- og B-hluta 6,7 milljarðar kr.
● Rekstrargjöld A- og B-hluta án fjármagnsliða 5,9 milljarðar kr.
● Framkvæmdir og fjárfestingar A og B hluta 655 m.kr.

Um fasteignagjöldin segir í bókun Í listans:

„Á fyrri stigum undirbúnings fjárhagsáætlunar var útlitið ekki gott og ekki nægir peningar til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum. Í því ljósi taldi meirihlutinn stefna í að nauðsynlegt yrði að hækka álagningarhlutfall fasteignagjalda til baka í það sem var árið 2019 og árin þar á undan. Hlutfallið hafði verið lækkað tímabundið 2020 sem mótvægisaðgerð í efnahagslægð heimsfaraldursins. Eftir því sem á vinnuna leið, kom í ljós að með markvissum aðhaldsaðgerðum og útsjónarsemi yrði hægt að víkja frá þessu. Við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar var lagt til að fara millileið, en nú við framlagningu lokaáætlunar verður hlutfallinu haldið óbreyttu.“

Í listinn segir í bókuninni að framtíð Ísafjarðarbæjar sé björt:

„Það þarf að hafa hugrekki til að velta við steinum, gæta aðhalds og standa við sett markmið. Til að Ísafjarðarbær sé fær um að stækka og eflast þarf að ráðast í uppbyggingu innviða, ljúka við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins, endurskoða og aðlaga deiliskipulög og þar með ákveða framtíðar uppbyggingasvæði, byggja upp skóla, leikskóla og íþróttasvæði. Samhliða vonumst við til þess að sjá tekjur sveitarfélagsins aukast en ekki er gert ráð fyrir því í þessum áætlunum nema að takmörkuðu leyti.“

DEILA