Hvetjandi: hagnaður 24,5 m.kr

Hvetjandi á 10% hlutafjár í Kampa. Mynd: Kristinn H Gunnarsson.

Aðalfundur Hvetjanda verður haldinn á mánudaginn og verður hann með fjarfundarsniði. Ársreikningur félagsins fyrir síðasta árs liggur fyrir. Tekjur Hvetjanda voru einkum verðbreyting á eignasafni 25,2 m.kr. Rekstrarkostnaður er hverfandi og varð hagnaður ársins 24,5 m.kr. Engin laun voru greidd á árinu. Eignir voru um áramótin 260 m.kr. og þar af skuldlaust eigið fé 251 m.kr.

Hvetjandi hf. eignarhaldsfélag var stofnað í janúar 2004 af Ísafjarðarbæ og er þolinmóður fjárfestir. Tilgangur félagsins er að taka þátt í stofnun og starfsemi annarra félaga sem rekin eru á grundvelli arðssjónarmiða, fela í sér nýmæli í atvinnulífi og eða eru mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á norðanverðum Vestfjörðum.

Í upphafi árs og við lok þess voru 12 hluthafar í félaginu. Þeir eru, Byggðastofnun 38,17%, Ísafjarðarbær 19,09%, Vestinvest 16,63%, Landsbankinn hf 13,97% Verkalýðsfélag Vestfirðinga 1,66%, Dress Up Games ehf 1,66%, Bolungarvíkurkaupstaður 2,26%, Gildi lífeyrissjóður 1,36%, Tálknafjarðarhreppur 0,67%, Súðavíkurhreppur 1,64% og Fiskvinnslan Íslandssaga hf. og Klofningur ehf. 0,21% hvort félag.

Á síðasta ári voru keyptir hlutir fyrir 9 m.kr. og seldir fyrir 3,9 m.kr. Seldir voru allir hlutir Hvetjanda í Símaverinu og nokkrir hlutir í Snerpu og Norðureyri.

Helstu eignir eru hlutir í Fiskvinnslunni Íslandssögu hf 25 m.kr. (19,23%), Snerpa 17 m.kr. (10%), útgerðarfélagið Skúli 12,3 m.kr. (6,39%), Arna ehf 12,6 m.kr (5,83%), Norðureyri ehf 20 m.kr. (3,55%) og Skútusiglingar ehf 15 m.kr. 18,18%).

Í stjórn Hvetjanda eru Jón Páll Hreinsson, Arna Lára Jónsdóttir, Guðbjörg Óskarsdóttir, Neil Shiran Þórisson og Pétur Grétarsson.

DEILA