Hjartastjaki með dúettinum Isafjørd

Dúettinn Isafjørd hefur gefið út sína fyrstu plötu og nefnist hún Hjartastjaki.

Óhætt er að segja að Ísafjörður hafi veitt þeim félögum innblástur því tónlistin er eins og að upplifa Djúpið með eyrunum, ljúf og seiðandi en um leið hrjóstrug og myrk. Yrkisefnið er einlægt og tilfinningaþrungið og myndar ólíkur söngur þeirra beggja andstæðukennda heild sem hæfir þessum óð til landslagsins sérstaklega vel.

Dúettinn Isafjørd skipa þeir Ragnar Zolberg og Aðalbjörn Tryggvason.

Félagarnir hafa marga fjöruna sopið í tónlistarlífinu, hvor í sínu lagi, en það eru ræturnar sem leiða þá saman í þessu nýja verkefni, Isafjørd.

Feður þeirra beggja ólust upp á Ísafirði og því er tengingin þangað sterk. Ragnar Zolberg er hvað þekktastur úr hljómsveitunum Sign og Pain of Salvation en Aðalbjörn úr hljómsveitinni Sólstafir.

Ef hljómplata getur verið staður sem þú heimsækir þá er þessi nýja plata með Isafjørd, Hjartastjaki, ferðalag sem þú vilt fara í.

DEILA