Heimurinn eins og hann er

Í bókinni Heimurinn eins og hann er notar höfundurinn Stefán Jón Hafstein hið frjálsa form ritgerðarinnar til að tengja persónulega upplifun við heimssöguna.

Hann rýnir í sögu hins fallna Rómarveldis og hvernig það kallast á við okkar tíma i pólitíkinni. Hvernig reynir maður að skilja þær fjölþættu ógnir sem birtast í vistkerfunum og brengluðum kerfum mannanna?

Smíðin er hvorki fræði- né vísindarit en styðst við fjölda heimilda og eigin reynslu höfundar. Í bókinni eru engar formúlur sem þarf að skilja og engin skýringarmynd svo flókin að höfundur geti ekki rissað hana upp sjálfur. Samt er hér bara það sem sannast telst sagna eins og góð heimildafrásögn á að vera.

Sjónarhorn frásögunnar er vítt og víða leitað fanga til að styðja við þá meginröksemd að illskeytt vandamál steðji að mannkyni og vistkerfunum öllum. Bættur skilningur á því er öllum fyrir bestu.

Um bókina segir Einar Kárason: ,,…jafnframt hefur hann dregið saman mikinn fróðleik, eins og menn með hans feril auðvitað afla sér, um ástand heimsins eins og það blasir við honum. Ég tel að sem flestir eigi að ná sér í bók Stefáns vinar míns og lesa hana af gaumgæfni.“

DEILA