Góðir samningar segir formaður Verkvest

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Starfsgreinasamband Íslands, þ.e. 17 af 19 aðildarfélögum þess, undirrituðu áðan kjarasamning  til janúarloka 2024 við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði. Bæði Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungavíkur standa að samningunum.

Ekki hafa enn verið gerðir samningar við verslunarmenn, iðnaðarmenn og sjómannasamtökin.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga var ánægður með nýju samningana.“Þetta eru góðir samningar.“ Sérstaklega nefndi Finnbogi að staða fiskverkafólks batnaði verulega í þessum samningum. Þá sagði hann að nýju samningarnir tækju starx við af þeim fyrri og það hefði ekki gerst áður á þeim tíma sem hann hefur komið að kjarasamningnum.

Í yfirlýsingu starfsgreinasambandsins segir að kauptaxtar hækka frá 1. nóvember 2022 um að lágmarki 35.000 kr. Að auki felur samningurinn í sér lagfæringu á launatöflunni, sem gerir það að verkum að hækkun getur orðið allt að 52.000 kr. á mánuði. Laun þeirra sem ekki taka laun eftir kauptöxtum, þ.e. eru á mánaðarlaunum, hækka um 33.000 kr. frá 1. nóvember. Desember- og orlofsuppbætur taka jafnframt hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót verður 56.000 kr. á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2023. Kjaratengdir liðir samningsins hækka um 5% frá 1. nóvember og þá hækka bónusar og akkorð í fiskvinnslu um 8% sem mun skila fiskvinnslufólki á bilinu 6.000 – 34.000 kr. hækkun á mánuði. 

DEILA