Félagslegar leiguíbúðir: 1.522 kr/fermetra

Frá Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að ný gjaldskrá verði samþykkt fyrir félagslegt húsnæði fyrir árið 2023. Velferðarnefnd sveitarfélagsins mun taka gjaldskrána fyrir á fundi sínum í dag.

Fasteignir Ísafjarðarbæjar ehf. eiga og reka allar félagslegar leiguíbúðir og eru þær 82 talsins, 52 á Ísafirði, 12 á Suðureyri og 9 á hvorum stað Hnífsdal og Þingeyri.

Samkvæmt nýju gjaldskránni verður verðið 1.522 kr. á hvern fermetra fyrir 2 – 3 herbergja íbúð á Ísafirði og Suðureyri en 1.218 kr. sé íbúðin á Þingeyri. Fyrir 4-5 herbergja íbúð á Ísafirði er verðið 1.236 kr/fermetra og 1.112 kr/fermetra fyrir þá stærð af íbúð á Suðureyri. Ekki kemur fram í gjaldskránni hver stærð íbúðanna er í fermetrum og kemur ekki fram í gjaldskánni hver mánaðarleigan verður.

Félagslegar leiguíbúðir eru ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum sem þurfa sérstaka aðstoð við að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrði og/eða annarra félagslegra erfiðleika og skulu fjárhags- og félagslegar aðstæður þeirra metnar út frá ákveðnum viðmiðum reglna um félagslegar leiguíbúðir. Tekjumörkin eru að árstekjur 2022 séu innan við 6.957.000 kr. fyrir einstakling en 9.740.000 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk. Við það bætist svo 1.739.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu. Þessar tölur verða væntanlega uppfærðar fyrir komandi ár.

Samhliða undirritun leigusamnings þarf leigutaki að standa skil á tryggingarfé sem er ígildi 3 mánaða leigu. Leigan hækkar mánaðarlega í samræmi við vísitölu neysluverðs og greiðist fyrirfram 1. hvers mánaðar. Leigjendur geta átt rétt á húsnæðisbótum og sérstökum húsnæðisstuðningi. Jafnframt er greitt í hússjóð og þjónustugjald þar sem við á.

DEILA