Dýrafjörður: hafsbotninn í góðu ástandi á öllum eldissvæðum

Elvar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri í Hringbrautarviðtalinu fyrir viku.

Hafsbotninn undir öllum þremur eldissvæðum í Dýrafirði eru í góðu ástandi samkvæmt síðustu skýrslum. Fá þau öll einkunnina 1 sem er besta einkunn.

Athygli hefur vakið að fyrir réttri viku fullyrti Elvar Örn Friðriksson, fram­kvæmda­stjóri Verndar­sjóðs villtra laxa­stofna, í fréttaumfjöllun á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, að hafsbotninn í Dýrafirði undir laxeldiskvíunum væri „ein stór bakteríumotta, þar sem ekkert annað þrífst, steindauður botn, úrgangur í fiskunum og fóðurleyfar.“

Svo vill til að þessar fullyrðingar framkvæmdastjórans er hægt að staðreyna. Það er lögum samkvæmt fylgst með lífríkinu, ástandi þess fyrir upphaf eldis og breytingum á því meðan á eldi stendur. Á vef Umhverfisstofnunar eru birtar upplýsingar um kröfur og eftirlit ,svo og eftirlitsskýrslur og skýrslur um mælingar og vöktun. Starfsleyfið sjálft er þar einnig aðgengilegt og getur hver sem er kynnt sér það og önnur gögn.

https://ust.is/atvinnulif/mengandi-starfsemi/starfsleyfi/eldi-sjavar-og-ferskvatnslifvera/arctic-sea-farm-dyrafirdi/?fbclid=IwAR0AWmm0tKMqQntWGQd1Z28ExoQTKl5R5lZaVZuAZwpTLB23KsFMijCIywg

Í starfsleyfi Arctic Fish fyrir eldi í Dýrafirði er tiltekið hvernig eigi að vakta áhrif eldisins á lífríkið og er sérstaklega mælt fyrir að hindra skuli að efnalosun og uppsöfnun fóðurleifa hafi áhrif á heilbrigði eldisstofnsins og gæði umhverfis. Fylgja á tilgreindum stöðlum við eftirlitið, íslenskum staðli ISO 12878, norskum staðli NS9410, auk þess sem fyrirtækið er með alþjóðlega umhverfisvottun ASC.

Fyrirtækið Akva plan tekur starfsemina reglulega út og sannreynir hvort eldið uppfyllir kröfurnar sem eru gerðar. Eftirlitsskýrslur þess eru birtar á vef Umhverfisstofnunar.

Arctic Fish er með leyfi fyrir eldi á laxi í sjókvíum á fjórum eldissvæðum, Haukadalsbót, Gemlufalli, Eyrarhlíð og Skagahlíð (sem hefur aldrei verið í notkun). Heimilt er að ala allt að 10.000t lífmassa í stöðinni á hverjum tíma og að jafnaði ekki á fleiri en tveimur staðsetningum á hverjum tíma.

Öll svæðin fá 1 í einkunn

Síðustu eftirlitsskýrslur Akva plan fyrir eldissvæðin þrjú í Dýrafirði eru aðgengilegar á vef Umhverfisstofnunar. Skyldu þær lýsa hafsbotninum undir kvíunum eins og framkvæmdastjóri Verndarsjóðs villtra laxastofna lýsir?

Í eftirlitsskýrslunni dags 17.8. 2022 segir að öll svæðin þrjú hafi fengið 1 í einkunn „Mjög gott“ , sem er hæsta einkunn og ekki eru settar fram ábendingar þar um.

Sýnatökuskýrslurnar eru birtar á heimasvæði rekstraraðila á ust.is og hægt að lesa skýrsluna fyrir hvert svæði um sig. Til dæmis segir í skýrslunni um Gemlufall að kvíasvæðið í heild fái einkunnina 1 „very good“. Í skýrslunni var skoðaður í júlí 2021 botninn undir kvíunum og þar út frá og tekin sýni. Þetta er hægt að bera saman við rannsóknir sem gerðar voru áður en eldið hófst. Gemlufallssvæðið hefur síðan verið í hvíld og ekkert eldi er þar.

Kort af mælingunum undir kvíunum á Gemlufalli. Tekin voru sýni á 10 stöðum og reyndust 8 fá bestu einkunn og 2 staðir næstbestu einkunn.

Sömu sögu er að segja ef athugaðar eru eftirlitsskýrslur Akva plan fyrir Haukadalsbót og Eyrarhlíð. Ástand botnsins er mjög gott.

Allar staðhæfingar eru ósannar

Niðurstaða eftirlitsaðila sýnir að fiskeldi í Dýrafirði hefur tekist vel til hvað varðar umhverfisáhrif. Hafsbotninn undir kvíunum í Dýrafirði er í góðu ástandi. Allar staðhæfingar Elvars Arnar Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Verndarsjóðs villtra laxastofna reynast ósannar þegar skoðuð eru opinber gögn.

Hafsbotninn undir kvíunum er ekki ein stór bakteríumotta. Hann er ekki steindauður og uppsöfnun fóðurleyfa og úrgangs er ekki að eiga sér stað. Niðurstaða eftirlits er að á öllum eldissvæðunum eru opinberu reglurnar um framkvæmd eldisins að skila því sem ætlast er til og að áhrifin á umhverfið eru innan marka þeirra reglna.

Framkvæmdastjórinn vísaði máli sínu til stuðnings aðeins til mynda sem kajakræðari segist hafa tekið einhvers staðar á Dýrafirði. Ekki hefur verið gefið upp hvar og hvenær þær myndir voru teknar.

Það er ólíku saman að jafna opinberu eftirliti þar sem skýrslur og önnur gögn eru opinber og öllum aðgengileg og svo leyndardómsfullum myndbrotum.

Það er óvanalegt að verða vitni að jafn viðamiklu fráviki frá staðreyndum eins og raunin varð í umræddu Hringbrautarviðtali sem ritstjóri Fréttablaðsins stýrði. Það er líka óvanalegt að viðtalið var sama kvöld birt á vef Fréttablaðsins. Það er loks að nefna að það er óvanalegt að í helgarblaði Fréttablaðsins , næst á eftir viðtalinu, sem var reyndar meira eintal, við framkvæmdastjóra Verndarsjóð villtra laxastofna birtist heilsíðuauglýsing frá sama Verndarsjóði þar sem krafist er að laxeldi í sjó verði bannað.

Ritstjóri Fréttablaðsins hefur sjálfsagt gert sér grein fyrir því að ef hann hefði farið að vekja máls á opinberum skýrslum um gott ástand hafsbotnsins undir eldiskvíum í Dýrafirði, sem hann auðvitað átti að benda á, hefði það truflað málflutninginn gegn laxeldinu og kannski hefði orðið til þess að draga úr áhrifamætti komandi auglýsingar. Af tillitsemi sinni hafði hann ekki orð á því.

-k

Eldissvæðin fjögur í Dýrafirði.

DEILA