Byggðasamlag Vestfjarða: framkvæmdastjórinn hætt

Sif Huld Albertsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Sjótækni.

Sif Huld Albertsdóttir hætti sem framkvæmdastjóri Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks þann 1. desember sl. Þetta kemur fram í tilkynningu fra stjórn Byggðasamlagsins á vefsíðu þess nú í kvöld.

Í tilkynningunni segir að starfslokin séu gerð í fullri sátt við stjórn og er Sif Huld þakkað fyrir vel unnin störf fyrir byggðasamlagið sem og að málefnum fatlaðs fólks á Vestfjörðum. Þá er henni og fjölskyldu hennar óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Sif greinir frá þessu í færslu á facebook í kvöld. Þar segir hún:

„Nú eru tímamót hjá mér og okkur fjölskyldunni. Tveggja ára baráttu, í að reyna að starfa sem framkvæmdastjóri BsVest, eftir að ég tilkynnti einelti, er lokið. Ég óskaði eftir starfslokasamningi þar sem starfumhverfi á vinnustaðnum mínum breyttist ekki þrátt fyrir fögur loforð um að hlutirnir myndu breytast. Ég elskaði vinnuna mína og fannst ótrúlega skemmtilegt að takast á við mismunandi verkefni og láta gott af mér leiða í þessum viðkvæma málaflokki. Góður vinur sagði mér, þegar ég ákvað að standa með sjálfri mér og tilkynna einelti, að það væri alltaf þolandinn sem hyrfi úr starfi. Ég vildi ekki trúa því, og reyndi í einlægni að sinna starfinu mínu í gegnum ömurlega tíma. Nú er þó komið nóg, ég verð að hlusta á sjálfa mig og hætta því sem fer illa með sálina. Ég trúi því að það sé eitthvað nýtt og betra sem bíður mín og hlakka til að komast í vinnu með eðlilegu starfsumhverfi sem er ekki yfirfullt af meðvirkni með gerandanum. Baráttukveðja til annarra í svipaðri stöðu!“

Í fyrra gerði Sif samkomulag við Ísafjarðarbæ, sem annast rekstur byggðasamlagsins, um bætur vegna eineltis sem hún hafði orðið fyrir að mati ráðgjafarfyrirtækis. Þá sagði hún af sér sem bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ vegna málsins.

Samkomulagið við Ísafjarðarbæ er trúnaðarmál og hefur ekki verið upplýst. Starfslokasasamningurinn við BsVest er einnig trúnaðarmál.

DEILA