Byggðakvóti: 1.110 tonn í Ísafjarðarbæ

Páll Pálsson ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt Ísafjarðarbæ um úthlutun á 1.110 tonnum af 4.623 tonna byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs 2022/23. Skiptist kvótinn á milli byggðarlaga innan sveitarfélagsins þannig að til Flateyrar fara 285 tonn, Hnífsdalur fær 163 tonn, Ísafjörður 195 tonn, Suðureyri 192 tonn og Þingeyri 275 tonn.

Gefst nú sveitarstjórinni tækifæri til þess að setja reglur um úthlutun kvótans til einstakra skipa og báta og skal því lokið fyrir 13. janúar 2023.

Um það gilda almennar reglur með möguleika á að setja sérreglur í einstökum sveitarfélögum. Í Ísafjarðarbæ gilda þær reglur fyrir síðasta fiskveiðiár að bátar séu í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í sveitarfélaginu en heimilsfangið þarf ekki þarf að vera í byggðarlaginu og bátar með frístundaveiðileyfi fá 1 tonn hver. Af því sem þá er eftir deilist út þannig að 40% skiptist jafnt milli annarra skipa, þó ekki meira, í þorskígildum talið, en viðkomandi bátur landaði á fiskveiðiárinu 2020/2021, afganginum skal skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botnfiskafla.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að kalla eftir sjónarmiðum íbúa og hagsmunaðila og leggja fram tillögur um sérreglur á fundi bæjarráðs í janúar 2023.

DEILA