Bolungavík: spá um 35% íbúafjölgun á næstu 10 árum

Í húsnæðisáætlun fyrir Bolungavík, sem sveitarfélagið hefur unnið í samráði við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, er vakin athygli á því að fólki hafi aftur farið að fjölga í Bolungavík um 2016 eftir langvarandi fólksfækkun.

Í forsendum áætlunarinnar segir að næstu ár munu markast m.a. af miklum uppgangi í fiskeldi á norðanverðum Vestfjörðum. Í skýrslu KPMG um áhrif fiskeldis á Vestfjörðum kemur fram að áætlað er að yfir 1000 bein störf munu skapast í fiskeldi á Vestfjörðum á næstu árum ásamt enn fleiri óbeinum störfum. Stór hluti þessara starfa munu skapast á norðanverðum Vestfjörðum.
Íbúaspáin tekur því mið af mikilli eftirspurn eftir fólki við uppbyggingu ásamt framtíðaruppbyggingu í nýjum atvinnu-greinum. Spáin er varfærin spá sem tekur mið af meiri vexti á næstu sex árum, en minnki svo í kjölfarið.

Samkvæmt íbúaspánni mun íbúum fjölga um 171 á næstu fimm árum og um 343 íbúa á næstu 10 árum og verða þá orðnir liðlega 1.300. Gangi það eftir verður fjölgunin 35%.

Íbúðum mun fjölga um 91 á næstu 5 árum og um 144 sé litið 10 ár fram i tíma. Sú fjölgun er einnig um 35% eins og íbúafjölgunin. Staðan í dag er sögð þannig að lítið sé um húsnæði á lausu, sem hamlar fólksfjölgun.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir fram að nóg sé af lóðum til byggingar og 12 íbúðir eru í byggingu. Samkvæmt húsnæðisáætluninni eru lóðir fyrir 29 íbúðir byggingarhæfar og á næsta ári bætist við nýtt hverfi, Lundahverfi og þar eru skipulagðar 50 íbúðir. Þá eru skipulagðar 60 íbúðir í fjölbýli á svonefndu miðsvæði bæjarins.

Mikil atvinnuuppbygging

Í húsnæðisáætluninni er greining á atvinnuástandinu og horfunum. Þar kemur fram að uppbygging hafi átt sér stað á síðustu árum og horfum séu á því að hún haldi áfram.

„Í dag er uppsveifla í atvinnulífi í Bolungarvík og á Norðanverðum Vestfjörðum og mikil fjárfesting hefur verið undanfarin ár. Störfum við mjólkurvinnslu hefur fjölgað umtalsvert. Landaður afli í Bolungarvíkurhöfn hefur aukist, Sjávarútvegsfyrirtækið Jakob Valgeir hefur fjárfest í nýrri hátæknifiskvinnslu ásamt aukningu í aflaheimildum. Ferðaþjónusta hefur verið að eflast, nýr útsýnispallur á Bolafjalli mun skapa mikil tækifæri í aukinni þjónustu við ferðamenn.
Ennfremur er ný laxavinnsla í byggingu í Bolungarvík sem skapar 40-50 ný störf, ásamt því að við Ísafjarðardjúp munu skapast mikil fjöldi nýrra starfi í fiskeldi og tengdum störfum.“

DEILA