Bolungavík: metframkvæmdir á næsta ári

Útsýnispallurinn á Bolafjalli í ágúst 2022. 15 m.kr. kosta framkvæmdir við bílastæði og aðstöðu skv. áætlun. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í fjárhagsáætlun Bolungavíkurkaupstaðar fyrir næsta ár er gert ráð fyrir framkvæmdum upp á 332 m.kr. sem eru að sögn Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra mestu framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins um árabil. Hann segir að stærstur hluti þeirra framkvæmda sé til að standa undir uppbyggingu á grunninnviðum sveitarfélagsins sem eiga eftir að styðja við uppbyggingu samfélagsins, bæði íbúa og fyrirtækja, til langrar framtíðar.

Stærsta framkvæmdi verður bygging nýs forðatanks fyrir Vatnsveitu Bolungavíkur. Framkvæmt verður fyrir 130 m.kr. Nærri 70 m.kr. verður varið til hafnaframkvæmda og er þar endurbygging Grundargarðs stærst. Í það verkefni fara 62,5 m.kr. Í gatnagerð og gangstéttir fara 55 m.kr., 50 m.kr. til gatnagerðar í nýju Lundahverfi og 5 m.kr. í gangstéttir. Í bílastæði og aðkomu á Bolafjalli er ráðstafað 15 m.kr. og 20 m.kr. í íþróttahús, þar af 18 m.kr. í endurnýjun loftræstikerfis. Um 30 m.kr. fara i endurbætur á Grunnskólanum, 3 m.kr í endurbætur á leikskólalóð, 5 mkr. í slökkvilið og loks 5 m.kr. í félagslegar íbúðir á Aðalstræti.

Af framkvæmdaskostnaði 332,45 m.kr. greiðast 200 m.kr. úr bæjarsjóði og mismunurinn eru framlög ríkisins og endurgreiðslur annarra.

DEILA