Bolungavík: 11%aukning tekna milli ára

Bæjarstjórn Bolungavíkur afgreiddi í síðustu viku fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlun 2024-26. Skatttekjur sveitarfélagsins , útsvar, fasteignafjöld og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga aukast á næsta ári um 11% milli ára og verð 1.203 milljónir króna en voru 1.083 milljónir króna skv fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.

Aukning verður einkum í tekjum af útsvari og fasteignagjöldum. Þau eru áætluð 865 m.kr. á næsta ári, 936 m.kr á árinu 2024, 975 m.kr. á árinu 2025 og fara yfir milljarðinn á árinu 2026 og eru þá áætluð verða 1.047 m.kr. Verða tekjurnar þá af útsvari og fasteignagjöldum 30,5% hærri en á þessu ári.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að mikil tekjuaukning einkenni áætlanirnar og að á næsta ári 2023 verði mesta framkvæmdaár um áratugaskeið. Hann segir að skuldahlutfall muni lækka. Gjaldskrár voru að jafnaði hækkaðar um 4,9% sem er lægra en nemur verðbólgunni.

Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga voru 281 m.kr. á þessu ári en verða 338 m.kr. á því næsta.

Tekjur hafnarsjóðs eru áætlaðar 103 m.kr. á næsta ári og gjöld 85 m.kr. Rekstrarafgangur verður 18 m.kr skv. áætluninni. Vatnsveitan verður tekin með afgangi á næsta ári, tekjur verða 48 m.kr. og gjöld 34 m.kr. Þá verður 17 m.kr. afgangur af rekstri fráveitu en 17 m.kr. halli af rekstri félagslegra íbúða og 14 m.kr. halli af rekstri hjúkrunarheimilis. Félagsheimil Bolungavíkur kostar sveitarfélagið 37 m.kr. á næsta ári, 15 m.kr. vegna reksturs og 22 m.kr. í fjármagnskostnað.

Niðurstaða af rekstri næsta árs er að tekjur verði 1.734 milljónir króna og gjöld 1.592 m.kr. Fjármagnsliðir eru 138 m.kr. og lokaniðurstaða af rekstri eru 4 m.kr. afgangur. Afgangurinn eykst á næstu árum þar á eftir og verður 147 m.kr. 2026 sem samsvarar 7% af heildartekjum þess árs.

DEILA