Björt framtíð með miklum viðsnúningi í rekstri Ísafjarðarbæjar

Bæjarfulltrúar Í listans.
  • Mikill viðsnúningur í rekstri bæjarins með ábyrgri fjármálastjórn og langtímasýn.
  • Álagningarhlutfall fasteignaskatts óbreytt frá síðustu tveimur árum.
  • Nýr gervigrasvöllur mun stórbæta aðstöðu knattspyrnuiðkenda til æfinga og keppni.
  • Sérstök áhersla á skipulags og umhverfismál.

Fjárhagsáætlun sem lögð var fram í vikunni sýnir að aðhalds verður gætt í rekstri næsta árið. Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að árið verði nýtt til undirbúnings í skipulagsmálum og nýrra byggingasvæða, svo að við getum haldið ótrauð inn í tímabil uppbyggingar og viðhalds á eignum sveitarfélagsins sem er löngu orðið tímabært.

Viðsnúningur í rekstri með ábyrgri fjármálastjórn og langtímasýn

Helstu niðurstöður áætlunar ársins 2023 eru:

  • Rekstrarafgangur A-hluta 33 m.kr.
  • Rekstrarafgangur samstæðunnar 206 m.kr.
  • Tekjur A- og B-hluta 6,7 mia.kr.
  • Rekstrargjöld A- og B-hluta án fjármagnsliða 5,9 mia.kr.
  • Framkvæmdir og fjárfestingar A og B hluta 655 m.kr.

Síðustu þrjú ár hefur rekstur sveitarfélagsins verið erfiður. Rekstrarjöfnuður áranna 2020–22 er uppsafnað tap upp á 1,2 mia.kr. Ef flett er í gegnum eldri fjárhagsáætlanir sést að endirinn er ekki alltaf eins og upphafið lofaði. Það er því gríðarlega mikilvægt að vanda vel til verka við gerð fjárhagsáætlunar. Fjárhagsleg markmið þurfa að vera raunhæf, skýr og þess eðlis að bæði starfsmenn og ekki síst bæjarfulltrúar geti unnið eftir þeim. Þó að í stóru sveitarfélagi geti komið upp ýmis mál sem verður að bregðast við með hraði, verður meginstefið í allri okkar ákvarðanatöku að vera að fylgja fjárhagsáætlun.

Eitt af áherslumálum Í-listans fyrir kosningar var að ná tökum á fjárhag sveitarfélagsins. Nú í sumar hófst vinna Ísafjarðarbæjar með ráðgjöfum til að undirbúa setningu fjárhagslegra markmiða sem væru metnaðarfull, raunhæf og í samræmi við þau lög sem við á. Samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar eru þessi markmið samþykkt. Meðal markmiða eru:

  • Veltufé frá rekstri sé yfir 8,5%.
  • Þriggja ára rekstrarjöfnuður A-hluta verði jákvæður.
  • Fjárfestingar A-hluta verði 280 m.kr. á næsta ári en eftir það aukist fjárfestingar í 300 m.kr. árið 2024 og 350 m.kr. árin 2025 og 2026.
  • Skuldahlutfall verði innan við 125% árið 2024 og lækki þar til það nái jafnvægi undir 100%. Skuldaviðmið verði til lengri tíma 60%.
  • Staða handbærs fjár í A-hluta verði að jafnaði ekki lægri en 100 milljónir.

Markmiðin eru metnaðarfull og sumum verður ekki náð fyrr en 2026. Fjárhagsáætlunin gerir þó ráð fyrir að helstu skammtímamarkmið muni nást og gott betur strax á næsta ári. Þannig verður veltufé frá rekstri 9,3% sem er 1,8% hærra en markmiðið sem sett var. Útkomuspá 2022 reiknar með að skuldahlutfall A-hluta verði 134%, en strax á næsta ári fari það niður í 124% og standist þannig sett markmið.

Engin hækkun á álagningarhlutfalli fasteignaskatta

Á fyrri stigum undirbúnings fjárhagsáætlunar var útlitið ekki gott og ekki nægir peningar til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum. Í því ljósi taldi meirihlutinn stefna í að nauðsynlegt yrði að hækka álagningarhlutfall fasteignagjalda til baka í það sem var árið 2019 og árin þar á undan. Hlutfallið hafði verið lækkað tímabundið 2020 sem mótvægisaðgerð í efnahagslægð heimsfaraldursins. Eftir því sem á vinnuna leið, kom í ljós að með markvissum aðhaldsaðgerðum og útsjónarsemi yrði hægt að víkja frá þessu. Við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar var lagt til að fara millileið, en nú við framlagningu lokaáætlunar verður hlutfallinu haldið óbreyttu.

Þetta breytir ekki því að tekjur bæjarins aukast milli ára af fasteignasköttum vegna hækkandi fasteignamats í sveitarfélaginu. Það endurspeglar aukna trú landsmanna á fasteignakaupum í héraðinu. Í þeim byggðakjörnum sveitarfélagsins þar sem fasteignamat er enn mjög lágt, eru fasteignaskattar með þeim lægstu á landinu.

Íbúar hafa látið vel í sér heyra í tengslum við þessa mögulegu hækkun álagningarhlutfallsins. Meirihluti Í-listans er sammála um að hækka ekki álögur á íbúa ef hægt er að skila rekstri A-hluta í plús. Það er því ánægjulegt að leggja fram fjárhagsáætlun með óbreyttu álagningarhlutfalli fasteignaskatts.

Nýr gervigrasvöllur meðal framkvæmda

Af nýjum verkefnum á framkvæmdaáætlun ber hæst að ráðgert er að setja 95 m.kr. í nýtt gervigras á aðalvöllinn á Torfnesi og annað árið 2024. Hafist verður handa eftir að knattspyrnutímabilinu lýkur haustið 2023 og stefnt á að þeim ljúki áður en keppnistímabilið hefst 2024. Nú tekur við það verkefni að hanna og skipuleggja verkið nánar. Með góðri samvinnu við íþróttahreyfinguna og einkaaðila gæti framkvæmdaféð hrokkið til að laga þann gervigrasvöll sem fyrir er og er ónýtur.

Af öðrum framkvæmdum má nefna áframhaldandi vinnu við Sundabakka, og byggingu hafnarmannvirkja af ýmsu tagi. Verulegir fjármunir fara til gatnagerðar og malbikunar, meðal annars á nýju og hratt vaxandi iðnaðarsvæði á Suðurtanga. Vatnslagnir í Súgandafirði, umbætur á leikvöllum, fráveituframkvæmdir í flestum byggðakjörnum sveitarfélagsins og áframhaldandi stórviðgerðir á Safnahúsinu eru meðal liða á framkvæmdaáætlun.

Með þungum afborgunum lána árin 2023 og 2024 er rými til fjárfestinga minna en ella væri. Það mun svo verða meira 2025 og árin þar á eftir og þá verður hægt að vinna hraðar niður stóran stabba af mikilvægum og nauðsynlegum framkvæmdum.

Sérstök áhersla á skipulagsmál

Í aðdraganda kosningana og stefnuyfirlýsingu meirihlutans var það skýr vilji Í-listans að gera gangskör í skipulagsmálum. Þessa sést merki í áætluninni. Eitt stöðugildi er flutt af velferðarsviði yfir á tæknideild, fjármunir eru settir í að klára aðalskipulag og aðrir í deiliskipulag, en búið er að heimila gerð að minnsta kosti tveggja deiliskipulaga. Þá verður á nýju ári hafinn undirbúningur við svæðisskipulag fyrir Vestfirði, þó þess muni ekki sjást merki í fjárhagsáætlunum fyrr en 2024.

Skipulagsmál eru þeirrar náttúru að vera svifasein enda eru margir sem þurfa að koma að ákvörðunum og fjölbreyttir hagsmunir sem þarf að sætta. Þegar skipulag liggur fyrir eru þar ákvarðanir sem gildi lengi og öll ákvarðanataka verður fljótleg.

Framtíð Ísafjarðarbæjar er björt

Það þarf að hafa hugrekki til að velta við steinum, gæta aðhalds og standa við sett markmið. Til að Ísafjarðarbær sé fær um að stækka og eflast þarf að ráðast í uppbyggingu innviða, ljúka við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins, endurskoða og aðlaga deiliskipulög og þar með ákveða framtíðar uppbyggingasvæði, byggja upp skóla, leikskóla og íþróttasvæði. Samhliða vonumst við til þess að sjá tekjur sveitarfélagsins aukast en ekki er gert ráð fyrir því í þessum áætlunum nema að takmörkuðu leyti.

Bæjarfulltrúar hafa talað einum rómi um mikilvægi þess að fiskeldissveitarfélög fá greitt úr fiskeldissjóði inn í A-hluta. Vinnuhópur sex sveitarfélaga, sem stofnaður var að frumkvæði Í-lista, er að störfum og áætlar að skila niðurstöðum fljótlega. Ekki er gert ráð fyrir mögulegum tekjum af þessu í áætlun.

Þá tekur Í-listinn undir niðurstöður tekjustofnanefndar um að ýmis verkefni sveitarfélaga séu vanfjármögnuð af hálfu ríkisins. Einkum eru málefni fatlaðs fólks og barna með fjölþættan vanda kostnaðarsöm, en í báðum málaflokkum er afar mikilvægt að veita góða þjónustu.

Samstarfið í bæjarstjórn hefur gengið afar vel. Fyrir utan umræður í bæjarráði, ráðum og bæjarstjórn hafa bæjarfulltrúar setið tvo vinnufundi við undirbúning fjárhagsáætlunar. Allar umræður hafa verið á uppbyggilegum nótum sem ber að þakka. Að lokum viljum við þakka starfsfólki Ísafjarðarbæjar fyrir mikla og óeigingjarna vinnu við fjárhagsáætlun sem við vitum að hefur alls ekki rúmast innan hefðbundins vinnutíma.

Bæjarfulltrúar Í-lista

Gylfi Ólafsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Magnús Einar Magnússon og Arna Lára Jónsdóttir.

DEILA