Arctic Fish: kaup Mowi gengin í gegn

Hið glæsilega nýja sláturhús Arctic Fish í Bolungavík.

Norska fyrirtækið Mowi tilkynnti Kauphöllinni í Osló í gær að það hefði gengið frá kaupum á 51,28% hlutafjár í Arctic Fish. Seljandi var SalMar og kaupverðið 1,9 milljarðar norskra króna eða um 27,5 milljarðar íslenskra króna á gengi í gær. Samkvæmt þessu má ætla að verðmæti Arctic Fish sé um 54 milljarðar króna.

Arctic Fish hefur framleiðsluleyfi fyrir 27.100 tonnum af eldislaxi á Vestfjörðum og er með 4.800 tonna umsókn að auki. Gert er ráð fyrir að á árinu 2022 verði slátrað 10.600 tonnum af laxi.

Mowi er stærsta fyrirtæki í heimi í framleiðslu á eldislaxi. Velta þess var á síðasta ári um 640 milljarðar íslenskra króna. Markaðsvirði þess í norsku kauphöllinni er um 1.250 milljarðar ísl. króna.

DEILA