Alþingi: vill halda greiðslumarki óbreyttu í sauðfjárrækt

Kristrún Frostadóttir, alþm tók upp málefni sauðfjáræktar í óundirbúnum fyrirspurnum á mánudaginn. Vakti hún athygli á því að í sauðfjársamningnum árið 2016 hafi verið samþykkt að leggja niður greiðslumark í sauðfjárbúskap í þrepum og færa greiðslur í staðinn yfir í almennari stuðning. Nú hefðu ákveðin markmið um aukna verðmætasköpun og útflutningstekjur af íslenskri sauðfjárrækt ekki náðst og vildi Kristrún því að matvælaráðherra hætti við að trappa niður þessar greiðslur um áramótin þar sem afkomuöryggi sauðfjárbænda hafi sjaldan verið verra. Spurði hún því ráðherrann hvort ekki mætti bíða með lækkun beingreiðslunnar og taka málið til athugunar í umsaminni endurskoun sauðfjársamningsins á næsta ári.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra sagði ekki á hennar valdi að víkja frá samningnum, hann hefði verið undirritaður af báðum aðilum og síðan samþykktur í atkvæðagreiðslu meðal bænda bæði 2016 og svo aftur 2019 þegar samningarnir voru endurskoðaðir. Þá þyrfti að hafa í huga að um væri að ræða tilfærslu á fjármagni innan sauðfjársamningsins, lækkun fjármagns til beingreiðsla færi ekki út úr kerfinu heldur í aðra liði samningsins.

Ráðherra sagði rétt að rekstrarskilyrði sauðfjárræktar hafi verið erfið. „Mér finnst mikilvægt að horfa til þess með heildstæðum hætti hvernig við komum til móts við þá stöðu vegna þess að þarna er auðvitað um að ræða mikilvægan þátt innlendrar matvælaframleiðslu.“ og sagði mikilvægt að hafa heildarmyndina undir þegar endurskoðun búvörusamninga færi fram á næsta ári.

DEILA