50 ár frá komu skuttogarans Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270

Mynd : ljósmyndasafn Ísafjarðar.

Í dag eru rétt 50 ár frá því að skuttogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom til Ísafjarðar.  Hann var smíðaður í Flekkefjord í Noregi fyrir Gunnvöru hf. og var fyrstur í röðinni af fimm skuttogurum, sem vestfirskar útgerðir sömdu um smíði á. Hinir togararnir voru Guðbjartur ÍS, Bessi ÍS, Guðbjörg ÍS og Framnes ÍS. Bessi ÍS var gerður út frá Súðavík og Framnesið á þingeyri en hinir þrír voru allir á Ísafirði. Eftirlitsmaður fyrir hönd vestfirsku útgerðanna var Ísfirðingurinn Bárður Hafsteinsson.

Sagt er frá viðburðinum í Ísfirðingi og segir þar að skipið hafi komið til heimahafnar 6. desember. Um skipið , áhöfn og stjórn segir:

„Júlíus Geirmundsson er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp og Maskinfabrikk í Noregi. Skipið er 407 tonn. Mesta lengd 46,5 m og mesta breidd 9,5 m. Aðalvél er af Wichmann gerð 1750 ha. Tvær Ijósavélar eru í skipinu af G.M. gerð 215 ha. hvor. Það er búið 4 blaða skiptiskrúfu og skrúfuhring, sem eykur togkraft skipsins um 25%. Skipið er búið jafnvægistönkum
og er fyrsta íslenzka fiskiskipið, sem þá hefur. Skipið er búið öllum fullkomnustu siglinga- og fiskileitartækjum.
Togvindur eru af gerðinni Brussell. Einnig eru í skipinu rveir löndunarkranar. Skipið er einnig útbúið sérstaklega til flotvörpuveiða. Í skipinu eru vistarverur fyrir 17 manns, allar rúmgóðar og mjög vistlegar.
Skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni er Hermann Skúla son, stýrimaður er Ómar Ellertsson, 1. vélstj. Björn Ingvarsson, 2.vélstj. Arthúr Gestsson og matsveinn Kjartan Brynjólfsson.

Formaður stjórnar Gunnvarar hf. er Jóhann Júlíusson, en aðrir stjórnarmenn eru Þórður Júlíusson og Jón B. Jónsson. í varastjórn eru frú Margrét Leós og frú Helga Engilbertsdóttir. Framkvstj. er Birgir Valdimarsson.“

Minnst er tímamótanna á vefsíðu Hraðfrystihússins Gunnvarar hf, en þar segir að skipið hafi komið 5. desember, og þar segir að rekstur Júlíusar Geirmundssonar hafi gengið afar vel næstu árin. Fyrsta heila árið var aflinn tæp þrjú þúsund tonn en jókst smátt og smátt og var síðan næstu árin um fjögur þúsund tonn.

Mynd frá umfjöllun í Ísfirðingi um komu togarans.
Mynd af vefsíðu Hraðfrystihússins Gunnvör hf.

DEILA