103 umsóknir bárust í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða

Umsóknarfrestur um styrki úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða rann út í nóvember. Sótt var um til verkefna sem eiga að koma til framkvæmda árið 2023. Alls bárust 103 umsóknir í Uppbyggingarsjóð vegna ársins 2023. Samanlögð fjárhæð umsóknanna var 188.365.030 kr. Heildarkostnaður allra verkefna er 494.878.738 kr.

Skipting umsóknanna var þannig að 44 voru nýsköpunarverkefni, alls sótt um 102.455.780 kr. og heildarkostnaður verkefna 238.307.985 kr. Menningarverkefni voru 52, samtals var sótt um kr. 55.794.250 . Heildarkostnaður þeirra verkefna 155.379.910 kr. Loks voru 7 stofn og rekstrarstyrkumsóknir, alls 30.115.000 kr. Heildarkostnaður þeirra er 101.190.843 kr.

Á vef Vestfjarðastofu segir að þessi fjöldi sé svipaður og í meðalári. Umsóknirnar hafa nú verið sendar til fagráða sem meta hverja umsókn skv matsblaði. Þau senda niðurstöður sínar til úthlutunarnefndar sem ákveður endanlega styrkupphæð á þær umsóknir sem fagráðin leggja til að hljóti styrk.  Niðurstöðu þeirrar vinnu má vænta í byrjun desember.

Til úthlutunar eru 55.150.000 kr. Af þeirri upphæð hefur 11.850.000 kr þegar verið ráðstafað í fjölárastyrki. Til ráðstöfunar eru því 43.300.000 kr.

DEILA