Vesturbyggð sýknað af 13,4 m.kr. bótakröfu

Ráðhús Vesturbyggðar.

Landsréttur staðfesti á föstudaginn var sýknudóm Héraðsdóms Vestfjarða frá 26.7. 2021 í máli Sigríðar Ólafsdóttur gegn Vesturbyggð. Er sveitarfélagið sýknað af 12,4 m.kr. skaðabótakröfu, sem miðaðist við 18 mánaða laun og 1 m.kr. miskabótakröfu auk vaxta. Landsréttur ákvað að málskostnaður milli aðila falli niður.

Tildrög málsins eru þau að í nóvember 2019 var Sigríði sagt upp. Sveitarfélagið bar því við að um hagræðingaraðgerðir að ræða og hefði starfmönnum fækkað um fjóra. Starf bókara var lagt niður en auglýst 50% starf aðalbókara, sem hefðu að nokkru leyti lotið að öðrum verkefnum. Sigríður höfðaði mál og taldi uppsögnina hafa verið ólögmæta enda hefði Vesturbyggð borið að áminna hana áður en til uppsagnar kom fyrst uppsögnin hefði í raun snúist um hæfni hennar í starfi.

Landsréttur segir í dómnum að forstöðumenn hafi rúmar heimildir til þess að taka ákvarðanir í rekstri og af málsgögnum mætti ráða að uppsögnin hefði verið réttmæt miðað við hagræðingaráformin. Þá hefði verkefni aðalbókara verið að nokkru leyti önnur en bókara og auk þess ríkari menntunarkröfur gerðar.

Var þannig talið að ákvörðun um uppsögin hefði verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum, meðalhófs hafi verið gætt, og ákvörðunin verið í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamninga og laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu Vesturbyggðar af kröfum Sigríðar því staðfest.

DEILA