Vesturbyggð: skatttekjur 19,8% yfir áætlun ársins

Sjókvíar í Patreksfirði. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Skatttekjur Vesturbyggðar og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verða nærri 20% hærri samkvæmt útkomuspá ársins en fjárhagsáætlun 2022 gerir ráð fyrir. Útkomuspáin var kynnt fyrir bæjarráði Vesturbyggðar í síðustu viku.

Í fjárhagsáætlun ársins eru skatttekjur ( úrsvar og fasteignaskattur) áætlaðar verða 754 m.kr. en eru taldar verða 893 m.kr. í útkomuspánni. Munurinn er 139 m.kr. eða 18,4%. Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verða einnig verulega hærri en er í fjárhagsáætlun ársins. Framlögin voru áætlun 349 m.kr. en verða 427 m.kr. skv. útkomuspánni eða 22,3% hærri.

Samtals voru skatttekjur áætlaðar 1.102 m.kr. en verða 1.320 m.kr. Munurinn er 218 m.kr. sem tekjurnar eru meiri eða 19,8%.

Vegna íbúafjölgunar hefur skattgreiðendum í Vesturbyggð fjölgað. Íbúum hefur fjölgað um 107 frá 1.desember 2020 og voru þeir 1.172 um síðustu mánaðamót.

DEILA