Vesturbyggð: heimastjórnir frestast

Bíldudalur, séð til vesturs, Ketildalir, Arnarfjörður. Vesturbyggð. Mynd: Mats Wibe Lund.

Þrjár heimastjórnir í Vesturbyggð eru ekki enn teknar til starfa. Í byrjun maí var bæjarmálasamþykkt Vesturbyggðar formlega breytt með nýjum ákvæðum um heimastjórnir. Verða þær þrjár, ein fyrir fyrrum Patrekshrepp, önnur fyrir Arnarfjörð og sú þriðja sameiginlega fyrir fyrrum Barðastrandarhrepp og fyrrum Rauðasandshrepp.

Heimastjórnir skulu skipaðar þremur fulltrúum. Tveir fulltrúar og tveir til vara í heimastjórn skulu kosnir beinni kosningu við sveitarstjórnarkosningar og bæjarstjórn kýs þann þriðja.

Kosningar til heimastjórnar skulu fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum. Þær voru 14. maí í ár en ekki var kosið til heimastjórnanna þá. Sett var bráðabirgðaákvæði í bæjarmálasamþykktina sem frestar gildistöku heimastjórnaákvæðisins til 1. október síðastliðinn eða þar til kosið hefur verið í heimastjórnir í Vesturbyggð.

Bæjarráð Vesturbyggðar tók málið fyrir á síðasta fundi sínum og fól bæjarstjóra að vinna áfram að innleiðingu heimastjórnanna ásamt kynningu á breytingunni fyrir íbúa Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri segir að verið sé að vinna að undirbúningi heimastjórna, en ekki sé komin endanleg dagsetning á það hvenær þær verða teknar upp. Málið verður fljótlega aftur tekið fyrir í bæjarráði og þá verða teknar ákvarðanir um framhaldið.

Heimastjórnum er ætlað nokkuð hlutverk hver á sínu starfssvæði. Koma þær að málum er varða skipulagsmál, menningarmál, hafnamál og fjárhagsmál, ýmist með umsögn eða fullnaðarafgreiðslu.

DEILA