Vesturbyggð: 55,5 m.kr. lán í Ofanflóðasjóði

Mynd af framkvæmdum við ofanflóðavarnir á Patreksfirði í sumar.

Vesturbyggð hefur sótt um lán að fjárhæð 55,5 m.kr. í Ofanflóðasjóði. Fjárhæðin er hlutur sveitarfélagsins í framkvæmdum Ofanflóðasjóðs á Patreksfirði og Bíldudal frá 1. okt. 2021 til 30. sept 2022. Framkvæmt var fyrir 558,7 milljónir króna á tímabilinu og ber sveitarfélaginu að greiða 10% af þeirri upphæð.

Samkvæmt lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er Ofanflóðasjóði heimilt að veita sveitarfélagi lán úr ofanflóðasjóði sem nemur kostnaðarhlut þess. Lán skal veitt til 15 ára með sambærilegum kjörum og ofanflóðasjóði standa til boða. Endurgreiðsla af láninu, þar með taldir vextir og verðbætur, skal aldrei nema hærri fjárhæð á ári hverju en nemur 1% af höfuðstól lánsins, ásamt vöxtum og verðbótum, að viðbættum 0,15‰ af álagningarstofni fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og 50% af hreinum tekjum sveitarfélags vegna sölu eða leigu á eignum sem það hefur eignast vegna uppkaupa. Það sem eftir kann að standa af láninu að liðnum lánstíma skal falla niður.

DEILA