Vestfirðir: Halla Bergþóra Björnsdóttir sett lögreglustjóri í nóvember

Karl Ingi Vilbergsson er til vinstri á myndinni og Birgir Jónasson til hægri. Myndin er tekin þegar Karl lét af störfum og Birgir tók við.

– Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Halla Bergþóra Björnsdóttir, hefur verið sett sem lögreglustjórinn á Vestfjörðum frá og með 1. nóvember til og með 30. nóv. Hún tekur við af Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra Birgi Jónassyni sem var um miðjan ágúst einnig settur lögreglustjóri á Vestfjörðum til næstu tveggja mánaða eða þar til nýr lögreglustjóri verður skipaður.

Þau svör fengust í Dómsmálaráðuneytinu að lengri tíma hefði tekið að setja ráðningarferlið í gang en gert var ráð fyrir og því stæði það enn yfir. Nú er verið að taka viðtöl við alla umsækjendur og hæfnisnefnd á eftir að skila niðurstöðum. Vonumst er eftir því að þessu ljúki á næstu vikum, segir í svari ráðuneytisins.

Sex sóttu um stöðuna. Umsækjendur eru:

Einar Thorlacius lögfræðingur

Gísli Rúnar Gíslason deildarstjóri/lögfræðingur

Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari

María Káradóttir aðstoðarsaksóknari

Sigurður Hólmar Kristjánsson aðstoðarsaksóknari

Sigurður Ólafsson aðstoðarsaksóknari

Dómsmálaráðherra skipar lögreglustjóra til 5 ára í senn.

DEILA