Vestfirðir: 9 sektir vegna nagladekkja

Löggreglan á Vestfjörðum hefur beitt sektum níu sinnum vegna notkunar nagladekkja á þessu ári. Í fyrra var sektað tvisvar , einu sinni árið 2020 en aldrei árin 2018 og 2019.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra á Alþingi við fyrirspurn um sektir vegna nagladekkja.

Samkvæmt reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, er ekki heimilt að nota nagladekk á tímabilinu 15. apríl til 31. október ár hvert nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna. Á tímabilinu var engin sekt gefin út fyrstu tvær vikur eftir að bann tók gildi og síðustu tvær vikur áður en bannið rann út.

Á þessu ári hefur 116 sinnum verið sektað á landinu öllu. Sektirnar voru aðeins 46 í fyrra og 40 árið 2020. Langflestar sektirnar eru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eða 87. Síðan koma embættin á Vestfjörðum og Suðulandi með 9 sektir í hvorti umdæmi . Á Norðurlandi eystra hafa verið gefnar út 4 sektir, 2 á hverju svæði Austurlandi, Norðurlandi vestra og Suðurnesjum og ein sekt í Vestmannaeyjum. Engin sekt hefur enn verið gefin út á árinu á Vesturlandi.

Beðið er svara frá lögreglunni á Vestfjörðum við því hvers vegna sektun hefur fjölgað mikið í umdæminu á árinu og hvar ökumennirnir voru sem sektaðir voru.

DEILA