Vestfirðir: 45 m.kr. til uppbyggingar á innviðum til verndar náttúru

Alls var varið á þessu ári 45 m.kr. til verkefna fjórum stöðum á Vestfjörðum til verndar náttúru með uppbyggingu á innviðum.

Hæst var framlag ríkisins til lagfæringar á stíg frá Hrísvaðsfossi að Dynjanda. Í það verkefni fóru 19.889.000 kr. Á jörðinni Dröngum í Árneshreppi var veitt fé til tveggja verkefna. annars vegar 7,3 mkr. til salernisaðstöðu og hins vegar 11,4 m.kr. til þess að gera göngubrýr yfir Meyjará og Húsá.

Á Látrabjargi voru settar 4,2 m.kr. til þess að gera bílastæði á Bjargtöngum og í friðlandinu á Hornströndum var veitt 2.149.000 kr til lagfæringar á göngustíg og greiningarvinnu vegna krefjandi aðstæðna í Hornstrandafriðlandi.

Samtals var ráðstafað 709 milljónum króna til fjölmargar verkefna af þessu tagi um land allt á þessu ári úr svonefndri landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu stafshóps umhverfisráðherra um þjóðgarða og önnur friðlýst svæði sem kynnt var í gær.

DEILA