Uppskrift vikunnar – Öðruvísi lúðusúpa

Flest erum við alin upp við lúðusúpu, þessa klassísku og viljum varla breyta útaf vananum hvað hana varðar. Þessi uppskrift er alveg þess virði að minnsta kosti að mínu mati.

Nú er það ykkar að prufa og dæma.

Innihald:


500 gr. lúða
3 msk. smjör
½ bolli saxaður laukur
½ bolli saxað sellerí
500 ml. niðursoðnir tómatar
500 ml. tómatsafi
6 msk. tómatsósa
½ bolli söxuð græn paprika
½ bolli hrísgrjón
½ tsk. chillisósa
1 tsk. Worcestersósa
2 dropar af tabascosósu
2 hvítlauksrif
2 msk. kryddblanda (pickling spice)

Aðferð:


Setjið lúðuna, auðvitað er hægt að nota annan fisk, í kalt vatn og hitið að suðu. Takið fiskinn upp úr pottinum og losið í „flögur“. Léttsteikið lauk, sellerí og paprikuna í smjöri í stórum potti. Bætið síðan í pottinn 850 millilítrum af vatni, tómötunum, tómatsafanum, tómatsósunni hrísgrjónunum, chillisósu og hvítlauk og kryddblöndu. Það tvennt síðastefnda er gott að hafa í kryddpoka eða grisju til að ná úr því kryddinu, en einnig má setja það beint í súpuna. Látið þetta sjóða við vægan hita í 20 mínútur. Þá fer lúðan út í og súpan hituð á ný og kryddpokinn veiddur upp úr. Þá er súpan tilbúin á borðið. Þetta er fremur stór uppskrift, hugsuð fyrir 10 manns.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir

DEILA