Tónlist er fyrir alla!

Tónlistarskóli Ísafjarðar fékk á dögunum Sigrúnu Sævarsdóttur til þess að halda námskeið í lagasmíðum fyrir nemendur og kennara í skólanum. Það tókst með miklum ágætum eins og eftirfarandi pistill á heimasíðu skólans ber með sér.

„Gleðisprengjan og eldhuginn Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths sló í gegn hjá okkur með lagasmiðjum hjá Starfsendurhæfingu, nemendum okkar og kennurum. Það var stórkostlegt að fylgjast með því hvernig tónlistin varð til upp úr engu. Á þremur dögum urðu til tónverk sem voru flutt á tónleikum í lokin og við vorum orðlaus.

Það er ekki auðvelt að lýsa því hvernig aðferðum er beitt. Aldrei er gengið að neinu vísu og með nýjum hópi er í hvert skipti byrjað frá byrjun. Þetta byrjar smátt með einni lítilli hugmynd um rytma og kannski stuttum hljómagangi, en stækkar óðum. Ofan á tónlistina hefst svo textasmíð, þar sem allir geta lagt eitthvað til málanna í samræmi við þær tilfinningar sem tónlistin vekur upp.

Það skemmtilegasta er að þarna hópast saman fólk sem í sumum tilfellum hefur aldrei komið nálægt hljóðfæri, en sum með einhvern bakgrunn og enn önnur mjög færir hljóðfæraleikarar. Það skiptir í raun engu máli. Krafturinn sem fylgir Sigrúnu gerir það að verkum að við öll vorum óhrædd við að láta vaða. Lykilatriði er að hún hefur greinilega óvenjulega hæfileika til að láta öllum líða vel og öllum finnst þau hafa áorkað einhverju.

Við þökkum Sigrúnu og aðstoðarmanninum, Sturlu Má Finnbogasyni, hjartanlega fyrir og vonumst til að sjá þau sem allra, allra fyrst aftur og helst að færa þá kvíarnar enn frekar út í samfélagið. Tónlist er nefnilega fyrir alla!“

DEILA