Sveitarstjórn og bæjarstjórn á sunnanverðum Vestfjörðum hittust

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps og bæjarstjórn Vesturbyggðar ásamt framkvæmdastjórum sveitarfélaganna og ráðgjöfum frá KPMG á Bíldudal síðasta þriðjudag. Mynd: aðsend.

Á þriðjudaginn hittust bæjastjórn Vesturbyggðar og sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps. Tilefnið var að fyrr á árinu ákváðu sveitarstjórnirnar að hefja óformlegar viðræður um stofnun nýs sveitarfélags á sunnanverðum Vestfjörðum.

Farin var skoðunarferð um Bíldudal, Tálknafjörð og Patreksfjörð og tekið samtal um með hvaða hætti viðræður sveitarfélaganna verði skipulagðar. Á næstu vikum verður gengið frá samningi við KPMG vegna ráðgjafar við verkefnið, skipaðir verða fulltrúar í verkefnastjórn og óformlegar viðræður sveitarfélaganna munu halda áfram. Samráð við íbúa er hluti af þeirri vinnu sem fram undan er.

Í frétt um málið á vef Tálknafjarðarhrepps segir að sveitarfélögin eigi margt sameiginlegt og að góð samvinna hafi einkennt samstarf þeirra undanfarin ár. Ljóst er að samgöngumál verða efst á lista yfir áherslu sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu í viðræðunum.

DEILA