Svæðisskipulag Vestfjarða: Bolungavík ekki með að sinni

  Ráðhúsið í Bolungavík. Póstþjónustan hefur verið þar til húsa.

  Bæjarráð Bolungavíkur tekur treglega í beiðni Vestfjarðastofu f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga um fjárframlög til þess að standa undir kostnaði við gerð svæðisskipulags Vetsfjarða. Í bókun bæjarráðsins frá því á þriðjudag segir að frekar þurfi að undirbúa verkefnið og vinna ítarlegri kostnaðaráætlun áður en sett verði fé til þess á næsta ári.

  „Bæjarráð tekur vel í hugmyndir um svæðisskipulag og mikilvægi þeirrar vinnu fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum. Hinsvegar telur bæjarráð að verkefnið þurfi frekari undirbúning og vinna þurfi ítarlegri kostnaðaráætlun áður en sveitarfélagið geti markað fjárveitingu til verkefnisins í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2023.“

  Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók málið fyrir á mánudaginn og afgreiddi það ekki heldur jákvætt heldur  frestaði afgreiðslu málsins til næsta fundar, og fól bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga um málið.

  Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður að nema að hámarki 120 m. kr. segir í bréfi Vestfjarðastofu og skiptist kostnaðurinn milli sveitarfélaganna skv íbúafjölda. Mögulegt er að sækja um styrk úr Skipulagssjóði fyrir helmingi kostnaðar.

  Fjórðungssamband Vestfirðinga samþykkti í haust að hefja vinnu við gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði hið fyrsta.

  DEILA