Suðureyri: gatnagerðargjöld felld niður

Brekkustígur 7 er hið glæsilegasta hús. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að gatnagerðargjöld vegna nýbyggingar íbúðarhúsnæðis við Brekkustíg 5 á Suðureyri verði felld niður, en þau nema 5,6 milljónum króna. Vísar bæjarráðið til ákvörðunar bæjarstjórnar frá 6. október síðastliðinn um sérstaka niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna lóða við þegar byggðar götur í Ísafjarðarbæ, sem ekki þarf að leggja í frekari kostnað við gatnagerð og eru auglýstar eru á vef Ísafjarðarbæjar.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs kemur fram að Brekkustígur 5 er við þegar byggða götu og ekki er fyrirhuguð frekari gatnagerð við Brekkustíg. Lóðin er ekki á listanum yfir þær lóðir sem falla undir samþykktina frá síðasta mánuði en ætti að mati sviðsstjóra að falla undir samþykkt bæjarstjórnar.

Umsækjandinn er lóðarhafi að Brekkustíg 7 og segir hann í erindi sínu til bæjarins að hús hans sé nýlegt einbýlishús og þegar það var reist var ekkert aðgengi að því. Var þá gerð gata og greiddi umsækjandi að öllu leyti fyrir gatnagerðina. Nú hafi hann fengið lóðina Brekkustíg 5 , sem er við þá sömu götu. Fór hann því fram á að lóðin félli undir listann yfir lóðir við þegar tilbúnar götur og að gatnagerðargjöldin yrðu felld niður.

DEILA