Súðavík: óánægja með þjónustu Hvest

Súðavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir að ítrekað falli niður þjónustutímar hjá heilsugæslunni í Súðavík vegna læknaskorts og að ekki sé mikil áhersla á að sinna íbúum í heimabyggð. Hann segir að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi séð um heilsugæslu í Súðavík undanfarin ár, en mætingar lækna til Súðavíkur hafa verið stopular. Árið 2012 var sent út bréf stílað á Ómar Má Jónsson þáverandi sveitarstjóra í Súðavík og honum tilkynnt með bréfi til velferðaráðherra að óskað væri heimildar til þess að loka heilsugæslunni í Súðavík.

Bragi Þór segir að það að Þorsteinn Jóhannesson hafi boðist til þess að sinna heilsugæslunni setji þetta mál í nýtt samhengi.

Sveitarstjórn Súðavíkur tók málið fyrir á síðasta fundi sínum og krefst þess að heilsugæslunni verði sinnt þannig að læknir mæti þegar heilsugæslan á að vera opin.

Gætu farið til ráðherra

Bragi Þór Thoroddsen hafði samband við Gylfa Ólafsson hjá Hvest og tjáði honum að þetta þyrfti að ræða, bæði varðandi boð Þorsteins Jóhannessonar og einnig hvernig heilsugæslunni í Súðavík er sinnt. „Samkvæmt heilsugæslumódeli er ákveðnum fjármunum varið í heilsugæslu í Súðavík og því alveg spurning hvort þeir peningar eru að fara í réttan stað þar sem þeir eru ætlaðir til heilsugæslu fyrir Súðavíkurhrepp. Gylfi hefur boðið okkur á fund og sá fundur hefur ekki enn farið fram. Það verður væntanlega á allra næstu dögum. Ég og sveitarstjórn Súðavíkurhrepps vorum sammála um að láta sjá hvað kæmi út úr þeim fundi áður en við færum með erindið til ráðherra.“

Eiga að þjónusta Súðavík

„Það er engin launung að margir hafa haft samband við mig beint vegna þeirrar stöðu sem upp er komin og erfitt að líta fram hjá því að verið er að afþakka starfskraft í Súðavík á sama tíma og heilsugæslu er sinnt sem afgangsstærð. Það er mitt mat og margra annarra að þetta er stærra mál en svo að hægt sé að skauta fram hjá þessu án þess að stinga út á því sem máli skiptir. Líkt og kom fram í bókun okkar þá á samskiptavandi milli einstakra lækna og forstjóra Hvest ekki að vera okkur viðkomandi hér í Súðavík meðan þegnir eru fjármunir til þess að mæta þessari starfsemi sem inna á af hendi í Súðavík.“

Skortur á fagfólki

Gylfi Ólafsson, forstjóri Hvest segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að „það gildir um Súðavík, eins og önnur heilsugæslusel stofnunarinnar, að reynt er eins og hægt er að halda þeim opnum með læknum. Það tekst ekki alltaf og skýrist í langflestum tilvikum af skorti á fagfólki. Úrbætur eru almennar fyrir stofnunina í heild; að bæta mönnun fagfólks. Ég hef boðið sveitarstjórninni að koma á fund hennar til að ræða þessi mál.“

DEILA