Strandsvæðaskipulag: Háafell gerir athugasemdir við verndarsvæði í Djúpinu

Háafell á Ísafirði, sem hefur hafið laxeldi í Ísafjarðardjúpi, gerir sérstaklega athugasemd við tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem vill að stór svæði í Ísafjarðardjúpi fari á náttúruminjaskrá með þeim rökstuðningi að svæðið sé mikilvægt búsvæði landsela.

Bendir Háafell á að tillögur Náttúrufræðistofnunar séu vinnugögn sem ekki hafi farið í gegnum formlegt ferli friðunar og setur spurningarmerki við að taka upp slíkar tillögur í tillögu svæðisráðs um strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði án nánari skoðunar. Segir í athugasemd Háafells að verndarsvæðin virðist vera mjög stór og til þess fallin að takmarka framtíðarnot fyrir firðina , sérstaklega er varðar tækniframþróun í greininni.

Skötufjörður er mjög miilvægt fyrir Háafell og gerir það mögulegt að vera með eldi á frjóum laxi á tveimur árgangasvæðum þar sem nú er einungis heimilt að vera með eldi á frjóum laxi utan við Æðey. Um sé að ræða gott eldissvæði með góðum straum og skjóli og landtengingu í rafmagn. Tillaga Náttúrufræðistofnunar sé mjög takmarkandi.

DEILA