Sólarsýn!

Læknaskortur heyrir sögunni til eða hvað?

Enda þótt sól lækki nú hratt á lofti á Vestfjörðum þá sáum við skyndilega nýja sól hátt á lofti í kvöldfréttum Rúv 29.10. sl., sól sem væntanlega lýsir okkur í svartasta skammdeginu. Á norðurhimni birtist forstjóri Hvest og kynnti lausn læknaskorts í umdæmi sínu. Ja hvað gerir maður ekki til að komast í fjölmiðla? Lausnin var fundin með erlendum læknum, sem kæmu til skamms tíma á Hvest og með hjálp SÍMATÚLKS myndi tungumálaörðugleikar heyra sögunni til.  Leystist ekki tannlæknaskortur á þennan hátt?

Frábær lausn sem er áhugaverð og trúi ég að forstjórinn kynni hana fyrir heilbrigðisráðherra, sem væntanlega grípur fegins hendi, því vandinn er víða þó hvergi eins sár og mikill eins og á „umráðasvæði Hvest“.

Nei ágæti forstjóri, þú skilur ekki og veist ekki, á hverju samskipti heilbrigðisstarfsmanneskju og skjólstæðings byggjast og ættir því að láta öðrum eftir að kynna slík.

Eftir að hafa sett framansagt á blað, les ég umsögn þína í BB þar sem þú m.a. vitnar í Jóhönnu Fjólu,  forstjóra Hve (Heilbrigðisstofnun Vesturlands), Akranesi. Ég geri ráð fyrir að hún hafi og sagt þér frá því að framkvæmdartjóri lækninga  á Akranesi hafi í lok vinnu minnar á Snæfellsnesi boðið mér starf í Borgarnesi, sem tilheyrir jú Hve. Eins geri ég ráð fyrir að Jóhanna  Fjóla hafi sagt þér frá undirskriftum Ólafsvíkurbúa, sem skoruðu á stjórn Hve að halda mér áfram í starfi þar. Enn fremur geri ég ráð fyrir að hún hafi sagt þér frá tilflutningi yfirmanneskju hjúkrunar í Ólafsvík eftir „uppákomuna“ þar og brotthvarfs annars hjúkrunarfræðings frá Ólafsvík.

Hér skora ég á forstjóra Hvest og formann bæjarráðs Ísafjarðarbæjar að opinbera kvartanir skjólstæðinga Hvest á hendur mér, jafnframt skora ég á hann að lýsa tildrögum að brotthvarfi tveggja mjög reyndra lækna frá stofnuninni á sl. ári, undirrituðum verður tæplega kennt um það! Nú er aðeins einn læknir við stofnunina, sem undirritaður réði reyndar til starfa.

Ég leyfi mér hér að viðra þá hugsun, sem sækir æ sterkar á mig, að  margir starfsmennn innan hinnar ríkisreknu heilbrigðisþjónustu líti svo á að hún sé til fyrir þá, en ekki skjólstæðingana, fólkið í landinu! Þjónustulundin, sem áður var talin aðalsmerki heilbrigðisstarfsfólks er hugsanlega að renna sitt skeið og er það miður.

Þorsteinn Jóhannesson, skurðlæknir fyrrv. yfirlæknir Hvest.

Fylgiskjal I:

Opið bréf til forstjóra HVE Jóhönnu Fjólu

Ágæti forstjóri, undirritaður vill byrja á að gera grein fyrir sér. Var starfsmaður heilsugæslu(HG)  Akraness um þriggja ára skeið eftir samfellt 27 ára starf á “Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Eftir störf á Akranesi réði ég mig til starfa við HG Ólafsvíkur og hefi starfað þar um 10 mán. skeið, tvær vikur samfellt í hverjum mánuði og gert var ráð fyrir vinnuframlagi mínu amk. út þetta ár. Mér fannst sem flestum íbúum Snæfellsbæjar félli það vel enda höfðu þeir búið við það “ástand”  að 8-10 læknar, sem komu eina viku í senn, höfðu sinnt læknisstörfum við heilsugæslu Ólafsvík undangengin ár, og því búið við það óhagræði sem slíku fylgir. Lítil samfella, takmörkuð eftirfylgni og oft á tíðum byrjað “uppá nýtt” að vinna upp “gömul” vandamál. Reyndar var heilsugæslulæknir, sem um langt árabil hafði sinnt skjólstæðingum HG Ólafsvíkur, við góðan orðstír, látin fara, vegna óánægju starfsfólks heilsugæslu Ólafsvíkur og sjúkraflutningmanna þar, á síðastliðnu ári.

Í sumarfríi mínu um miðjan júlí sl. fékk ég símhringingu, ekki frá þér eða undirmanni þínum heldur aðila starfandi utan HVE, með þeim skilaboðum frá þér; að minnar viðveru á Ólafsvík væri ekki lengur óskað! En það vantaði lækni í Borgarnes og væri ég velkominn þangað!

Því sem ég kemst næst eftir viðræður við fjármálastjóra og lækningaframkvæmdastjóra HVE þá hafi undirskriftalisti starfsmanna HG Ólafsvík ráðið þessari ákvörðun þinni, sem þú varst ekki manneskja til að kynna mér sjálf, nei heldur gafstu það í hendur einstaklings, sem ekki starfar á HVE (heilbrigðisstofnun Vesturlands). Lækningaframkvæmdastjóri HVE, við hvern, ég hefi tvívegis rætt símleiðis eftir þessa uppákomu, segist vita lítið um þetta enda ekki verið á þeim fundi hvar þú tókst þessa ákvörðun. Hann hefur jafnframt staðfest við mig að flest hafi snúist til betri vegar  á heilsugæslu Ólafsvíkur eftir að ég hóf þar störf, hann hefur og eins og fjármálastjóri, staðfest að ég væri velkominn til starfa á heilsugæslu Borgarness.

Forstjóri, þegar ég lít til baka og fer yfir stöðu læknamála í umdæmi HVE undangengin ár kemur upp í huga mér ferskeytla Káins (Kristjáns N. Júlíus), sem að  ber yfirskriftina Vísað úr vinnu!:

Góður betri bestur

burtu voru reknir;

illur verri verstur

voru aftur teknir.

Að þú sem yfirmaður HVE skulir ekki hafa meiri metnað til að koma til móts við óskir/þarfir umbjóðenda HVE um þjónustu er til skammar. Nú er fjögurra vikna bið eftir tíma hjá HG-lækni á A-nesi, óvíst um tímabókun í Borgarnesi. Ég á allt eins von á að illa gangi að manna Ólafsvík, sem ég vona þó í hjarta mínu að ekki verði raunin, á þó fullt eins von á að svo verði ef stjórnunarháttum heilsugæslu Ólafsvík verði ekki breytt.

Eins get ég ekki orða bundist, nú á tímum gegnsærrar stjórnsýslu, að hvorki þú né mannauðsstjóri hafi haft bein samskipti við undirritaðnn vegna þessa máls!

Ber þetta merki góðrar/réttlátrar stjórnsýslu?

Skyldi núverandi og væntanlegir framtíðar ráðherrar heilbrigðismála lesa þetta bréf þá leyfi ég mér að segja; “ Ekki ráða heilbrigðismenntaðaða manneskju til starfa sem forstjóra Heilbrigðisstofnana/sjúkrahúsa, þvi þeir kunna að hafa tiheigingu til að skora “keilur” með umbun einstaklings úr eigin starfstétt á kostnað annarar.

Hvað ætlar þú að gera til að bæta ásýnd HG HVE og þjónustu hennar við íbúa Vesturlands?

Hvernig hyggst þú manna stöður HG lækna, sem þú rekur svo  hægri/vinstri?, vegna óánægju starfsfólks HG ef því tekst ekki að setja á læknana hálsgjörð og fá að teyma, að eigin vild, eins og rakka?

Aðkoma þín að þessu máli finnst mér bera merki grunnhyggni þar sem aðeins önnur hlið þessa máls er skoðuð, hvers vegna beitir þú þessum vinnubrögðum? Er það hugsanlega ekki ómaksisn vert að eyða orðum á mig?

Vænti svara á þessum vettvangi!

Að lokum vil ég nota tækifærið og þakka öllum samstarfskonum/mönnum á HG Akraness og Sjúkrahúss HVE fyrir frábæra viðkynningu og ánægjlegt samstarf.

Með vinsemd

Þorsteinn Jóhannesson Dr.med. skurðlæknir

Fylgiskjal II:

Hr. Framkvæmdastjóri lækninga

Þórir Bergmundsson

HVE Akranesi

Ágæti framkvæmdastjóri lækninga, tilurð þessara skrifa er fundur, sem við áttum, 15.03. sl. ásamt fjármálastjóra HVE Ásgeiri Ásgeirssyni, en undirritaður hafði óskað eftir fundi með ykkur, sem fyrirhugaður var 25.02., sá féll niður þar sem óskað var eftir, að ég kæmi fyrr til vinnu á Ólafsvík en áætlað hafði verið, sakir veikinda afleysingalæknis.

Það kom nokkuð spánskt fyrir sjónir, og þó ekki, að þú óskaðir eftir að ræða við mig einslega eða í návist fjármálastjóra áður en að við snerum okkur að fyrirhuguðu fundarefni, sem ég hafði óskað eftir og ykkur báðum var kunnugt um, ég gerði ekki athugasemdir við nærveru fjármálastjóra, enda Ásgeir vandaður maður sem ég ber fyllsta traust til.

Á þessum fundi 15.03. tjáðir þú mér að í undangenginni viku hafir þú ásamt mannauðsstjóra, frkvstj. hjúkrunar, fjármálastjóra og forstöðukonu HG Ólafsvíkur átt fund á Akranesi. Mér skildist að ástæða þessa fundar hafi verið kvörtun “yfirmanns” HG í Ólafsvík, sem er, að mér skilst í 50% launahlutfalli við HG Ólafsvík. Kvörtun/kæra forstöðukonu/yfirmanns HG Ólafsvíkur laut að framkomu minni, í því samhengi spurðir þú mig m.a. að því hvort ég ætti ekki barnabörn, hverju ég játti, og bættir þú þá við hvort mér væri ekki fært að nota slíkan tón (afatón?) við störf mín á HG Ólafsvíkur. Ég var svo hissa á þessari spurningu að mér láðist að spyrja? Gagnvart samstarfsfólki? eða skjólstæðingum?  Mér hugkvæmdist heldur ekki að spyrja þig hvort þú á þessum klögufundi  hefðir nefnt samskipti undirritaðs og NN hjúkrunarfræðings á HG Ólafsvík fimmtudaginn 29.10. 2020, en ég hafði tjáð þér þau munnlega og varst þú jafn orðlaus og ég varð! En á þessum nefnda degi spurði ég NN hjúkrunarfræðing hvort hún gæti aðstoðað mig við aðgerð á morgun 30.10.? Svar NN; “ Ég er HJÚKRUNARFRÆÐINGUR OG ER EKKI HÉR TIL AÐ AÐSTOÐA LÆKNA”. Mér varð orðfall en gat “stamað” eftir smá stund að ég teldi að starfsfólk HG væri teymi, sem hefði það markmið að leysa vanda skjólstæðinga “Heilsugæslunnar”, slíkri framkomu hefði ég hvorki fyrr né síðar á minum 43 ára ferli, sem læknir, kynnst. Átti ekki frekar orðaskipti við NN þennan dag.

Mánudaginn 22. 02. Sl.(var ekki í vinnu) hringi ég á HG Ólafsvík og næ tali af áðurnefndri NN eftir kveðjur segi ég henni að fyrirhuguð sé í næstu viku aðgerð vegna naglsæris, Unguis incarnatum, og þyrfti til þeirra aðgerðar Fenol lausn, benti henni á að slík væri til á HVE Akranesi og best væri að tala við lyfjafræðing á Akranesi sem myndi væntanlega útvega slíka lausn. Hitti NN að morgni 01.03. eftir að bjóða góðan dag spyr ég hana hvort Fenol lausnin væri komin svar hennar; “ nei hún er ekki á LISTA!” þá spurði ég hvort hún hefði ekki rætt við lyfjafræðinginn á Akranesi, eins og ég hafði bent henni á. “ Þú getur pantað þetta sjálfur!!!” var svar þessa HJÚKRUNARFRÆÐINGS. Sjálfur hringdi ég samdægurs í lyfjafræðing og lausnin var komin næsta dag og því til reiðu þegar skjólstæðingur kom til aðgerðar. Hefi ekki kynnst því áður að pantanir og áfyllingar ættu að vera á höndum lækna!

Næst þegar ég sá yfirmann HG tjáði ég “honum” þessi samskipti, sem “hann” hafði þegar vitneskju um.

Í þessum bréfstúf er ekki úr vegi að segja frá ástæðu þess að ég “gamall” maðurinn fór að vinna sem læknir á Ólafssvík.

Það var sennilegast fyrir tilstilli FJÖLNIS FREYS GUÐMUNDSSONAR     lækningaframkvæmdastjóra HS Suðurnesja að ég tók að mér tveggja vikna afleysingu í okt/ nóv. 2020. Hafði ekki komið nema x1 til Ólafsvíkur en það var reyndar sl. sumar er við Göngufélagar gengum yfir, og á Snæfellsnesi, leit á þessar afleysningarvikur sem kjörið tækifæri til að kynnast „landi og Þjóð“.

Þetta voru lærdómsríkar vikur, Ólsarar hörkufólk, sem hefur þurft að hafa fyrir sínu og náð ýmsu fram með dugnaði og þrautseigju, þeir tala íslensku og það tæpitungulaust. Upp til hópa kurteisir og vel meinandi en innan um, eins og alls staðar frekjur, sem líta á lækna/heilsugæslu sem “PÖNTUNARFÉLAG”. Við dæmum ekki skóginn af einu fölnuðu laufblaði!

Kynni mín af þessu samfélagi snart e-n streng í brjósti mér þannig að þegar Fjölnir Freyr spurði hvort ég myndi vera til í frekari „afleysingar“ gaf ég það ekki frá mér. Nefndi það við hann að eins og þessi þjónusta væri nú, veitt af  „tugum“ lækna eina viku í senn og oft liðu margar vikur þar til að sami læknir kæmi aftur,  væri ekki til eftirbreytni.  Afgreiðsla mála sein, upplýsingastreymi til skjólstæðinga tregt, enda heyrði ég það oft á dag þegar skjólstæðingar komu á stofu; “ einn í viðbót, ætlar þú að koma aftur? Ansi gaman að sjá e-n sem er farinn að grána, annað en fermingarbörnin!!!“ Mér varð það fljótlega ljóst að samfella var lítil, rík tilhneiging til að fresta málum, endalausar rannsóknir, láta næsta taka „ákvarðanir“, lítil upplýsingagjöf og skjólstæðingar heilsugæslunnar vissu ekki í „hvorn fótinn“ þeir ættu að stíga.  Þetta rann mér “landsbyggðamanninum” til rifja. Nefndi því að ég gæti séð fyrir mér að taka tvær vikur í mánuði, ef stefnt yrði að því að hinar tvær yrðu á „höndum“ færri lækna til þess að bæta samfelluna og meðferð. Fjölnir gaf undir fótinn með það að „vel látinn læknir“, sem þekkti vel til í Snæfellsbæ hefði hug á að vinna meir hér vestra. Því sló ég til og veitti ádrátt um að ég væri til í að reyna! Þvert á ráðleggingar gamalla “kollega” sem sögðu að í Ólafsvík væri e-r  DRAUGUR eða DRAUGAGANGUR, þar endist enginn lengi og þeir sem ílendast þar verði hálf brjálaðir.

Ég hefði betur átt þennan fund (15.03) með ykkur áður en ég gaf Fjölni undir fótinn. Eins og ég hefi sagt við ykkur og skrifað þá er enginn formlegur samningur til í millum Fjölnis og mín og hann (“læknaráðningastjóri” HVE) ekki skulbundinn mér á nokkurn hátt né ég honum. Ykkur er því í lófalagið að “REKA” mig á stundinni.

Ég hefði kanski betur hlustað á orð gömlu “kolleganna” um DRAUGAGANGINN en get með góðri samvisku sagt; “ ég er ekki þessi DRAUGUR/DRAUGAGANGUR, og veit ekki til þess að ég hafi vakið hann til lífsins, eða aukið honum kyngikraft.

Hitt skal viðurkennt hér að ég læt ekki setja á mig hálsgjörð svo hægt sé að teyma mig eins og óuppalinn rakka eða reynslulausan hvolp sem svo margir með litla reynslu hafa þörf fyrir!

Áskil mér rétt til að senda þetta bréf á Landlækni og stjórn FÍ.

Með vinsemd og virðingu

Þorsteinn Jóhannesson, Dr. med. Skurðlæknir

PS

Vænti þess af þér hafi ég verið sakaður um dónaskap við samstarfsfólk mitt eða það sem er svo vinsælt í dag “eineltis” tilburði eða annað sem ég set ekki hér á blað, þá segir þú mér frá því. Eins óska ég þess að þú ræðir við starfsfólk DH Jaðars Ólafsvík og DH Fellaskjóls Grundarfirði því ég er mér meðvitaður um máltækið; Aldrei reykur án elds!

DEILA