Sögukúrsinn réttur af

Skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ágúst Atlason.

Sívaxandi sókn skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar má líkja við tröllauknar breytingar í orðsins fyllstu merkingu. Að horfa yfir lognsælan Skutulsfjörðinn þar sem risavaxin skipin gnæfa yfir Eyrina er engu líkt. Þessi aukni straumur ferðamanna sjóleiðina er fagnaðarefni því ennþá virðist langt í land  að þeir ferðamenn sem koma loftleiðis til landsins dreifist betur um landið.

Uppfinningin sjálf

Nokkuð hefur borið á því í opinberri umræðu að undanförnu að þessi mikla fjölgun skemmtiferðaskipa sé afrakstur snilldar í markaðssetningu á allra síðustu árum og á stundum jaðrar umræðan við að skemmtiferðaskipin hafi verið fundin upp á Ísafirði. Þau hafa hins vegar siglt um heimsins höf frá árunum í kringum 1880. Þá er þess oft getið í framhjáhlaupi að fjárhagslegur afrakstur komu skipanna hafi bjargað bágum fjárhag hafnarsjóðs og nú sé hafnarsjóðurinn farinn að fjármagna rekstur bæjarsjóðs.

Þegar sjálfumgleði nær tökum á umræðunni verða sagnfræðilegar staðreyndir oftast að víkja. Ef ekkert er að gert verður hin nýja saga sú rétta. Til að forðast það eru þessi orð rituð.

Straumhvörfin

Á síðari hluta síðustu aldar kom fyrir að skemmtiferðaskip komu við á Ísafirði. Oftast var það tilviljunin ein sem réð þar ferðinni. Þá var heldur enginn undirbúningur að komu þeirra.

Á engan er hallað þegar sagt er að straumhvörf hafi orðið á tíunda áratugnum þegar Hafnarstjórn Ísafjarðar m.a. að undirlagi Hermanns Skúlasonar hafnarstjóra hóf skipulegt markaðsstarf með það að markmiði að laða skemmtiferðaskip til Ísafjarðar. Fyrst fór það starf fram í samvinnu við Reykjavíkurhöfn og síðla árs 1993 fól hafnarstjórn formanni hafnarstjórnar Einari Garðari Hjaltasyni og Hermanni Skúlasyni að vinna málið áfram. Þar komst formlegur skriður á málið. Áfram hélt samstarf við Reykjavíkurhöfn þar sem Ágúst Ágústsson réð ríkjum og Akureyrarhöfn bættist í hópinn þar sem Guðmundur heitinn Sigurbjörnsson hélt um stjórnvölinn. Þá fór að myndast hin lífseiga rúta skipanna Reykjavík-Ísafjörður-Akureyri. Allt hafnir með gott bakland, lóðsbáta, gott sjúkrahús, löggæslu og alla almenna þjónustu.

Slagurinn tekinn af alvöru

Í byrjun árs 1995 tók hafnarstjórn þá ákvörðun að Hermann ásamt Ingu Ólafsdóttur ferðafræðingi færu á ferðakaupstefnu skemmtiferðaskipa í Florida til kynningar á Ísafjarðarhöfn. Sú ferð tókst mjög vel og í kjölfarið í mars 1995 ákvað hafnarstjórn að ganga í samtökin Cruise Europe og þá má segja að Ísafjarðarhöfn hafi formlega verið komin í slaginn um skemmtiferðaskipin á eigin forsendum. Jafnframt var hafnarstjóra falið að móta áætlun um markaðssetningu hafnarinnar í samvinnu við væntanlegan ferðamálafulltrúa bæjarins sem þá stóð til að ráða. Í kjölfar sýningarinnar í Florida boðuðu sex skip komu sína til Ísafjarðar árið 1996. Síðan hefur sannast að lengi býr að fyrstu gerð.

Áfram sjóinn

Við sameiningu sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum árið 1996 tók Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar við keflinu og starfið hélt áfram. Í apríl 1997 lögðu svo Hermann Skúlason og Þórunn Gestsdóttir ferðamálafulltrúi fyrir hafnarstjórn áætlun þá sem fyrr er nefnd. Þar var lögð áhersla á að markaðssetning hafnarinnar væri verkefni til langs tíma og ekki væri raunhæft að nokkur árangur kæmi í ljós fyrr en í fyrsta lagi að tveimur árum liðnum. Síðla árs 1997 ákvað hafnarstjórn að bæta í markaðsstarfið og senda tvo fulltrúa hafnarinnar á ferðaráðstefnu í Amsterdam og fóru Hermann og Þórunn til ráðstefnunnar.

Staðfestan og styrkurinn

Þrátt fyrir samstöðu í hafnarstjórn og bæjarstjórn um þessa markaðssetningu fer fjarri að hún hafi verið óumdeild. Um hana urðu nokkur blaðaskrif, ekki síst ferðalög á vegum hafnarinnar á áðurnefndar ráðstefnur og sýningar. Rætnust urðu skrif eins af forvígismönnum Alþýðubandalagsins, síðar Alþýðuflokksins og um síðir Samfylkingarinnar í garð hafnarstjórnar og starfsmanna hennar. Í hans huga var markaðssetningin hreint bruðl og áðurnefnd ferðalög hreinar fyllirísferðir sem alls engu myndu skila. Sagan hefur fyrir löngu dæmt þessi skrif hans og fleiri úrtölumanna.

Það kom einnig í hlut hafnarinnar og reyndist tímafrekt að leiða saman ferðaþjónustufyrirtæki í landi til þess að tryggja afþreyingu fyrir farþegana og tryggja einnig að þjónusta væri í boði á komudögum skipanna. Allt hafðist það að lokum.

Sóknin eftir komum skemmtiferðaskipa hófst ekki vegna bágrar fjárhagsstöðu Ísafjarðarhafnar. Þvert á móti. Hafnarsjóður Ísafjarðar stóð þá styrkum fótum og gat einn og óstuddur ráðist í nauðsynlega markaðssetningu. Það var framsýni þeirra er þá réðu för. Blikur voru á lofti sem gátu og gjörbreyttu um síðir útgerð um Ísafjarðarhöfn. Þegar þau ósköp dundu yfir var kominn vísir að nýrri tekjustoð sem fleytti höfninni yfir versta hjallann.

Sviðsljósið og minnismerkið

Mannskepnan er um margt ólíkindatól. Sumir af tegundinni sækjast eftir sviðsljósinu og hlýjunni og athyglinni sem það vekur. Aðrir una glaðir við sitt í hógværð sinni. Sumir hafa ríka þörf á að minna á verk sín með því að reisa þeim áþreifanlegt minnismerki. Aðrir með því að skrifa söguna sér í hag, eins og áður sagði,  í trausti þess að sú útgáfa verði á endanum sú rétta.

 Saga markaðssetningar Ísafjarðarhafnar geymir nöfn margra staðfastra starfsmanna og stjórnarmanna hafnarinnar sem trúðu á þetta langtímaverkefni, sem nú hefur staðið  í tæpa  þrjá áratugi. Létu ekki úrtöluraddir og rætni hrekja sig af leið. Þar rís nafn Hermanns Skúlasonar hæst.

Það er aldrei farsælt flugið með stolnum fjöðrum.

Halldór Jónsson

-höfundur var formaður Hafnarstjórnar Ísafjarðar og síðar Ísafjarðarbæjar á árunum 1994-1998.

DEILA