Sjóferðir: vantar 10.000 farþega?

Ísafjarðarhöfn.

Sjóferðir skila farþegagjaldi af 4.940 farþegum í ár samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta frá Hafnarskrifstofunni á Ísafirði. Greiða ber gjald til hafnarsjóðs af hverjum farþega 190 kr fyrir fullorðinn og 150 kr fyrir barn að 12 ára.

Tvö önnur innlend fyrirtæki greiða farþegagjald. Borea adventure ( Skútusiglingar ehf) gefur upp 3.699 farþega, 3301 fullorðna og 398 börn og Amazing Westfjord með 750 farþega.

Alls námu tekjur hafnarinnar af farþegagjaldi frá þessum þremur fyrirtækjum 1.757.270 kr. fyrir 8,723 fullorðna farþega og 666 börn.  

Gjaldið skilaði miklum tekjum af erlendu skemmtiferðaskipunum. Alls var skilað farþegagjaldi af 86.286 manns sem námu 16.394.340 kr.

Sjóferðir: nærri 15.000 farþegar

Stígur Berg Sophusson, framkvæmdastjóri Sjóferða hefur gefið það út að fjöldi farþega fyrirtækisins hafi í ár numið nærri 15.000 sem er um 10.000 manns hærri tala en greitt er farþegagjald af til Ísafjarðarhafnar. Skýringar hafa ekki komið fram á þessum mun. Farþegagjald af 10.000 manns gæti verið 1,9 milljón króna séu þeir allir fullorðnir.

Farþegagjald er innheimt með heimild í hafnalögum og er til þess að straum af kostnaði við uppbyggingu í höfn á aðstöðu og búnaði fyrir farþega, sem og kostnaði við rekstur og viðhald.

DEILA