Sjóferðir: engin svör ennþá

Ísafjarðarhöfn.

Enn hafa engin svör borist frá Sjóferðum við fyrirspurn Bæjarins besta þar sem óskað var eftir skýringum á því að fyrirtækið skilaði farþegagjaldi af tæplega 5.000 farþegum, en það flutti nærri 15.000 farþega á árinu. Hver fullorðinn farþegi sem fer um höfnina á að greiða hafnarsjóði 190 kr.

Í svörum hafnarinnar við spurningum Bæjarins besta kemur fram að greitt er af farþegum erlendu skemmtiferðaskipanna sem koma í land. Fari þeir farþegar í ferðir með innlendum fyrirtækjum, t.d. í Vigur , er það önnur koma í höfn og greiða þarf öðru sinni farþegagjald.

Skila ber mánaðarlega skýrslu til hafnarsjóðs um fjölda farþega og hefur höfnin reitt sig á upplýsingar frá ferðaþjónustufyrirtækjunum.

Erlendu skemmtiferðaskipin skiluðu farþegagjaldi af 86.286 manns í ár og þrjú innlend fyrirtæki, Sjóferðir, Borea adventure og Amazing Westfjords fluttu samtals 9.389 farþega samkvæmt skýrslunum, þar af Sjóferðir 4.940.

DEILA