Sjóböð í Holtsfjöru

Útsýni út Önundarfjörð.

Fegurð, frelsi og fjölbreytileiki eru einkunnarorð nýrra sjóbaða í Holtsfjöru þar sem varmaorka úr sjó verður nýtt til að hita laug og heita potta.

Eignarhaldsfélagið Blævængur ehf. í samstarfi við verkfræðistofuna EFLU, arkitektastofuna Sen&Son, heimafólk og landeigendur hafa kynnt íbúum á Flateyri og í Önundarfirði tillögur að byggingu sjóbaða í landi Þórustaða í Önundarfirði. Næstu skref í þróun verkefnisins eru náttúrfarsgreinng og deiliskipulag svæðisins.

“Þetta er einstök náttúruperla sem kallar á hógværa, sjálfbæra og vandaða nálgun hvað framkvæmdir og rekstur varðar. Þetta er jú fegursti staðurinn í fallegasta firði landsins.” segir Runólfur Ágústsson, verkefnastjóri: “ Böðin verða meginsegull í ferðamennsku á Vestfjörðum og byggja á sjálfbærri nýtingu á varmaorku úr sjó, einstakri náttúrufegurð og þessari dásamlegu gullnu skeljasandsfjöru sem nú þegar er miðstöð sjóbaða á norðanverðum Vestfjörðum. Nálgun okkar er nærfærin á þann hátt að byggingin og böðin eru hönnuð inn í umhverfið og verða hluti af því. Þannig notum við enda gömu flugbrautarinnar í Holti sem bílastæði og þaðan munu gestir ganga rúmlega 100 metra stíg niður í laugarhúsið sjálft sem verður fellt þar inn í melgresishól niður við fjöruna sjálfa. Stígurinn mun liggja um æðarvarp í landi Þórustaða og geta gestir fylgst með varpi æðafuglanna og fjölda annarra fugla úr sérstöku fuglaskoðunarskýli á varptíma. Öll okkar hugmyndafræði snýst um að skapa einstaka náttúruupplifun fyrir gestina og að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið.”

Tvær bryggjur munu liggja frá lauginni um fjöruna í sjóinn. Annars vegar stígur tengdur stuttri flotbryggju, hins vegar ný löng trébryggja út í fjörðinn þar sem gestir geta á bryggjusporðinu hitað sig í stórum heitum potti eftir að hafa synt í firðinum.

Hönnunin öll byggir á hagkvæmni, virðingu fyrir staðaranda og ítarlegri markaðsgreiningu. Sérstök áhersla er á fjölbreytileika mannlífsins samhliða einstakri náttúrufegurð og þeirri frelsistilfinngu að synda í sjálfu Norðuratlanshafinu. Í böðunum verða í boði einkaklefar fyrir einstaklinga og pör, hefðbundnir karla- og kvennaklefar ásamt sérstökum kynsegin/blönduðum búningsklefa fyrir þá sem ekki vilja skilgreina sig inn í hefðbundna kynjaramma og aðra þá sem slíkt kjósa, t.d. foreldra sem vilja hjálpast að með ung börn.

Ásamt laugum, pottum og baðströndinni, verður veitingastaður fyrir 50 gesti hluti aðstöðunnar auk gufubaða, snyrti-, og nuddstofu.

Verkfræðistofan EFLA hefur unnið tillögur um vinnslu á varmaorku úr sjó til að hita upp sturtur, laug og potta. Þær byggja á því að nýta sjávarhitann (4-10 gráður) sem orkugjafa þar sem sjó er dælt um sérstaka varmadælu. Verkefnið felur því í sér nýsköpun hvar varðar orkuvinnslu á köldum svæðum.

Ásýnd ofan í sjóbaði til austurs.

DEILA