Sameining sýslumannsembætta: andstaða í Framsókn

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins og 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis lýsti yfir andstöðu við frumvarp Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra um sameiningu sýslumannsembætta landsins í eitt embætti. Þetta kom fram á opnum fundi Framsóknarflokksins sem haldinn var á Ísafirði í gærkvöldi. Nái frumvarpið fram að ganga verður Sýslumannsembættið á Vestfjörðum lagt niður og í þess stað og annarra sýslumannsembætti kæmi eitt embætti fyrir landið allt.

Stefán Vagn sagði aðferðafræði frumvarpsins vera kolranga og að það sem myndi gerast væri að embættið á Vestfjörðum, sem yrði aðeins ein starfsstöð af mörgum, yrði með yfirstjórnina annars staðar og myndi með tímanum fjara út.

Fleiri þingmenn Framsóknarflokksins voru á fundinum og kom fram að fleiri en Stefán Vagn væru þessum áformum andsnúnir.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingvetri og er á þingmálaskrá rikisstjórnarinnar en hefur ekki verið lagt fram að nýju á yfirstandandi þingi.

DEILA